Kæru Íslendingar,

Það var mér þungbær reynsla að hljóta sama dóm og Jón Ásgeir Jóhannesson í héraðsdómi fyrir að útbúa tilhæfulausan reikning að kröfu Baugsmanna sem þeir nýttu sér svo til að fegra afkomutölur sínar gagnvart kauphöllinni og íslenskum fjármálamarkaði.

Lögmenn Baugs segja mig ótrúverðugt vitni og jafnvel gengið svo langt að segja það einnig orðað í dómsniðurstöðum, sem er alrangt, enda þýðir slíkt að framburður minn sé að engu trúandi.

Hvergi í dómsniðurstöðum er því haldið fram að ég sé ótrúverðugt vitni.

Ég skal fúslega játa að mér er ekkert sérstaklega hlýtt til hinna ákærðu. Þeir sviku mig illilega í viðskiptum og stóðu ekki við gerða samninga.

Er ekki ástæða flestra dómsmála ágreiningur og oft mjög harðvítugar deilur?

Hvernig á manni að líða gagnvart þeim sem svíkja við mann gerða samninga?

Hvernig á manni að líða gagnvart mönnum sem ráða einkaspæjara til að elta fjölskyldu manns og rannsaka í þaula allt sem henni viðkemur og herja á heimili og vinnustaði til að komast yfir gögn og upplýsingar sem hugsanlega væri hægt að nota gegn manni?

Hvernig á manni að líða gagnvart þeim sem ráða fjórar lögfræðistofur í Bandaríkjunum og her lögmanna til að ganga frá manni fjárhagslega með því að höfða fjögur dómsmál á hendur manni í Bandaríkjunum þar sem lögfræðikostnaður getur auðveldlega gert venjulegan launamann gjaldþrota?

Í einu af þessum málum kröfðust Baugsmenn þess m.a. að eignarhlutur sinn í lúxusbátnum Thee Viking yrði viðurkenndur með dómi!

Fyrir dómstólum á Íslandi harðneituðu þeir hinsvegar allri eignaraðild að bátunum.

Enginn á Íslandi hefur séð ástæðu til að kanna af hverju Baugur tapaði öllum þessum málum í Bandaríkjunum og hvers vegna Baugur hafði skyndilega samband við lögmenn mína og vildi semja og falla frá öllum kröfum á mig og fyrirtæki mitt.

Ekkert frekar en að forvitnast um hvaða almenningshlutafélag á Íslandi greiddi fyrir þjónustu gleðikvenna við þungavigtarmenn í íslensku viðskiptalífi sem voru að leika sér á Baugsbátunum. Allt þetta kom fram fyrir dómi í Bandaríkjunum.

Fullyrða má að Baugsmiðlarnir Séð og heyrt / DV hefðu farið hamförum ef einhverjir aðrir ættu í hlut en eigandi sinn og velt sér upp úr málinu.

Sem einn sakborninga í Baugsmálinu hef ég lagalegan rétt — sem ég hef nýtt mér — til að fá aðgang að öllum málsskjölum og gögnum málsins.

Vegna fjölda áskoranna hef ég nú ákveðið að birta opinberlega hluta af þessum gögnum þar sem illskiljanlegt er hvernig íslenskir dómstólar hafa tekið á Baugsmálinu að mínu mati.

Afstaða íslenskra dómstóla til sakborninga í Baugsmálinu minnir mig helst á O. J. Simpson málið hér í Bandaríkjunum þar sem kviðdómur sýknaði þann fræga kappa þrátt fyrir yfirgnæfandi sönnunargögn í málinu gegn honum.

Sakborningar labba í dómssölum fyrir framan sjónvarpsmyndavélar með Bónus plastpoka í hönd til að minna almenning á uppruna sinn en þegar út fyrir landsteinana kemur tekur hið venjubundna líferni þeirra við.

Samfélagsleg staða Baugsmanna á Íslandi er það sterk og máttur fjölmiðlaveldis þeirra þess eðlis að það virðist algerlega útilokað að sannleikurinn um þessa herramenn líti dagsins ljós.

Í brúðkaupi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á sl.ári mátti sjá helstu stjórnmálaleiðtoga Íslands samankomna ásamt forseta Íslands og því ljóst að hin pólitísku tengsl þessa viðskiptamanns ársins 2007 skv. hans eigin fjölmiðli, eru ekki síðri en hin viðskiptalegu.

Þremur vikum áður en Hæstiréttur Íslands tekur fyrir þetta stærsta efnahagsbrotamál Íslandssögunnar heldur forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veglega verðlaunathöfn á Bessastöðum þar sem Baugur fær útflutningsverðlaun forsetans fyrir framúrskarandi árangur í viðskiptalífinu.

Sami forseti sá til þess að ekki var hróflað við fjölmiðlaveldi Baugsmanna, en það er stærsta fjölmiðlaveldi Íslandssögunnar og því hafa þeir beitt miskunnarlaust og af öllu afli í eigin þágu (sjá kaflann um ritskoðun Baugsmiðla).

Lítil sem engin umræða hefur átt sér stað um lögfræðilegar hliðar Baugsmálsins á Íslandi enda allar stærstu lögfræðistofur landsins í vinnu hjá Baugi á einn eða annan máta og því vanhæfar að tjá sig um málið.

Jafnvel kennarar og prófessorar við lagadeild Háskóla Íslands rita greinargerðir fyrir Baugsmenn og því einnig vanhæfir.

Endalausar traustyfirlýsingar hafa verið birtar í Baugsmiðlum frá stjórn Baugs ehf. þar sem fullyrt er að enginn hafi beðið skaða og allir hluthafar og stjórnarmenn Baugs ehf. standi þétt að baki þeim ákærðu.

Enginn fjölmiðill sér ástæðu til að skýra aðeins betur þessar „traustyfirlýsingar“. Baugur ehf. er ekki lengur almenningsfyrirtæki í eigu lífeyrissjóða og íslensks almennings eins og það var meðan það var skráð í Kauphöll Íslands.

Baugur er í dag einkafyrirtæki í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu hans að langstærstum hluta.

Þeir einstaklingar sem senda umræddar traustsyfirlýsingar og sitja í stjórn Baugs ehf. í dag eru m.a.:



Kemur einhverjum á óvart að þessir einstaklingar sendi frá sér traustsyfirlýsingar á sakborninga í málinu ?

Þrír af þessum stjórnarmönnum voru sjálfir sakborningar í Baugsmálinu!

Fullyrðingar þess efnis að Baugur og hluthafar þess í dag hafi ekki beðið tjón eru eflaust réttar enda hefur Baugur vaxið hratt síðan það var tekið úr Kauphöll Íslands Núna er Baugur eitt stærsta smásölufyrirtæki Norðurlanda og á topp 50 listanum yfir stærstu smásölufyrirtæki heims. Hafa núverandi hluthafar Baugs því hagnast gríðarlega.

Hið sama verður hinsvegar ekki sagt um hluthafana í Baug þegar það var eitt stærsta almenningshlutafélag Íslands þar sem ekkert yfirverð var greitt eins og venja er þegar fruminnherjar á borð við forstjóra og stjórnarmenn kaupa aðra hluthafa út, því þeir hafa augljóslega mun betri upplýsingar um rekstur og framtíð félagsins en hinn almenni hluthafi.

Það er til marks um þöggun íslenskra fjölmiðla að enginn fjölmiðill hefur, mér vitandi, kannað hvernig Baugur var tekið af markaði og hvaða hlutverki leynifélagið Fjárfar ehf. gegndi en félagið fékk gríðarlega fjármuni að láni frá Baug hf. (án lánspappíra, trygginga eða vaxta) sem það nýtti sér svo til mikilla hlutabréfakaupa í Baugi hf.

Ekki hefur heldur verið kannað hvernig verðmyndun á hlutabréfum Baugs hf. var háttað þegar félagið var afskráð úr Kauphöll Íslands en það er athyglisvert að gengi Baugs var i kringum 15 árið áður en það var afskráð úr kauphöllinni en Baugur var tekin af markaði á genginu 10.8.

Þögn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem var einn stærsti hluthafinn í almenningshlutafélaginu Baugi hf., er óskiljanleg. Það má færa sterk rök fyrir því að Lífeyrissjóður verslunarmanna hafi tapað umtalsverðum fjármunum þegar Baugur var afskráður úr kauphöllinni, að ekki sé talað um alla hina hluthafana sem skipta þúsundum.

Baugsmiðlarnir, allir sem einn, fengu talsvert af gögnum frá mér í byrjun janúar sl. árs en þeir hafa ekki séð ástæðu til að birta svo mikið sem eina setningu úr þeim. Þar á meðal eru fjölmargir tölvupóstar sem fundust einungis í tölvum Baugsmanna.

Það virðist því skipta talsverðu máli hver er eigandi tölvupósta sem birtast á forsíðum Baugsmiðla.

Eini fjölmiðilinn sem birti gögnin var netsvæðið www.eyjan.is og kallaði þau skjöl ársins.

Í kjölfarið hafa fjölmargir einstaklingar haft samband við mig með vangaveltur og spurningar, allt frá lögmönnum, blaðamönnum (enginn frá Baugsmiðlum), viðskiptafræðingum til almennra borgara sem skilja ekki af hverju þeir hafa ekki fengið að lesa þessi gögn í fjölmiðlunum.

Ég hef ekkert svar við því.

En hvað skýrir hina ótrúlegu velgengni Baugsmanna í viðskiptum?

Hvernig fara menn að því að byggja upp mesta viðskiptaveldi Íslandssögunnar, sem veltir liðlega 3 sinnum meira en íslenska ríkið, á jafn stuttum tíma og raun ber vitni ?

Hvað mig varðar, er svarið einfalt.

Það vita allir Íslendingar hvaða skoðun ég hef á þessum herramönnum og gögnin tala sínu máli.

Skiljanlega neita Baugsmenn öllum þessum ásökunum og segja þetta samsæri yfirvalda og hugarburð vitna sem eigi ekki við nein rök að styðjast.

Það er athyglisvert að í framburði sínum segja Jón Ásgeir og Tryggvi Jónsson tugi einstaklinga fara með ósannindi í framburðum sínum. Allir sem varpa sök á Baugsmenn virðast því hluti af þessu gríðarlega samsæri yfirvalda á hendur þeim.

Gildir það jafnt um endurskoðendur, stjórnarmeðlimi og stjórnarformann Baugs hf. sem og hina ýmsu aðila í viðskiptalífinu, sbr. kaflann um Fjárfar ehf. á þessari vefsíðu.

Á sama hátt vísuðu þeir á bug ásökunum um verðsamráð verslana Baugs og birgja þeirra sem komu fram í fyrra, þegar tugur fyrrverandi starfsmanna Baugsverslana hafði samband við fréttastofu RÚV og Morgunblaðið og sögðu frá umfangsmiklu verðsamráði Baugsverslana og blekkingum í verðkönnunum.

Allar þær ásakanir voru einungis hugarburður að mati Baugs og áttu ekki við nein rök að styðjast.

Rétt eins og ásakanir um meintar mútutilraunir til þáverandi forsætisráðherra voru sagðar uppspuni og fullyrt af hálfu Jóns Ásgeirs að höfðað yrði meiðyrðamál gegn forsætisráðherra sbr. þessi ummæli hans:

"Ég mun stefna forsætisráðherra fyrir þessi ummæli og höfða meiðyrðamál á hendur honum, því efnislega getur hann ekki einvörðungu skjaldað sig með meintum umælum Hreins."



Ekkert varð af þessari lögsókn, enda erfitt að sanna slíkt þegar stjórnarformaður Baugs segir forstjóra sinn hafa sagt þetta sbr. tengillinn hér að ofan.

Allir tölvupóstarnir sem fundust eingöngu í tölvum Baugsmanna — og eru sumir hverjir ansi skaðlegir fyrir sakborninga — eru sagðir falsaðir samkvæmt málsvörn þeirra fyrir dómstólum.

Jafnvel lögmaður Jóns Ásgeirs í upphafi Baugsmálsins, Helgi Jóhannesson, segir ósatt þegar hann lýsir vitneskju sinni um stjórnun og eignaraðild að leynifélaginu Fjárfar ehf., en Helgi segir Jón Ásgeir hafa ráðið Fjárfari ehf. og hann sjálfur aðeins framkvæmt það sem Gaumur ehf. (einkahlutafélag Jóns Ásgeirs) fól honum að gera.

Orðrétt segir Jón Ásgeir um framburð lögmanns síns:

"Jón Ásgeir segir að það sé ljóst að Helgi Jóhannesson hafi verið virkur þátttakandi í viðskiptum Fjárfars ehf. og Baugs þrátt fyrir framburð Helga um annað" (Sjá nánar í kaflanum um "Leynifélagið Fjárfar".)

Svona mætti lengi telja.

En lestu gögnin og framburðina og myndaðu þína eigin skoðun, lesandi góður.

Er Baugsmálið eitt stórt allsherjarsamsæri fyrrverandi forsætisráðherra, ritstjóra Morgunblaðsins og lögregluyfirvalda — eða eru vinnubrögð og aðferðir þessara herramanna einfaldlega ekki í samræmi við lög og reglur sem aðrir þurfa að hlíta?

Að lokum er rétt að taka fram að blaðamenn sem vinna á frjálsum og hlutlausum fjölmiðlum hafa verið mér afar hjálplegir sem og margir aðrir einstaklingar sem vilja að sannleikurinn komi fram.

Blaðamenn 24 stunda eiga mikið hrós skilið fyrir að birta framburðarskýrslur úr Baugsmálinu í blaði sínu hinn 15., 16. og 17. maí sl. og hvet ég alla til að lesa umfjöllun blaðsins betur á netinu.

Íslenska þjóðin á skilið að vita sannleikann í þessu máli.

Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.

Virðingarfyllst,
Jón Gerald Sullenberger