Í nóvember 2007 birti blaðamaðurinn Agnes Bragadóttir merkilega grein um "Hræðsluþjóðfélagið" í Morgunblaðinu.

Þar lýsti hún upplifun sinni af hræðslu heimildarmanna að tala t.d. um kvótasvindl, REI málið, verðsamráð matvöruverslanna o.fl.þ.h.

Ég birti hér hluta úr þeirri grein þar sem mér finnst þetta lýsa minni upplifun af íslensku samfélagi býsna vel (greinin í heild sinni er neðar).

"Að undanförnu hefur mér oft orðið hugsað til þess, hvað er að gerast í íslensku samfélagi, þar sem æ fleiri virðast óttast að koma fram með upplýsingar, skoðanir, ábendingar, túlkanir og greiningar, undir nafni, af ótta við hvaða afleiðingar frásagnir þeirra kæmu til með að hafa á persónulega hagi þeirra.

.....Eru hinir nýju valdhafar, þ.e. þeir sem ráða yfir mesta fjármagninu, orðnir svo valdamiklir að þeir geti á æ fleiri sviðum þjóðfélagsins beitt þöggun?

........Er ekki mál til komið að við Íslendingar bregðumst við þöggunartilraunum þeirra sem vilja ekki bara öllu ráða í viðskiptalífinu á Íslandi, í skjóli auðs síns, heldur einnig því sem er til umræðu hverju sinni og á hvaða forsendum?"



Ég trúi því og treysti að eftir dóm Hæstaréttar munu þessir fjölmiðlar fara gaumgæfilega ofan í þessi mál hver sem niðurstaða Hæstaréttar kann að vera.

Hér er grein Agnesar í heild sinni:

Sjómenn, sem hafa orðið vitni að kvótasvindli eða tekið þátt í því, þora ekki að koma fram undir nafni. Verslunarfólk í stórmörkuðum, sem orðið hefur vitni að því hvernig vinnuveitandinn beitir blekkingum í kringum verðkannanir, þorir ekki að koma fram undir nafni. Lögfræðingar, sem hafa sérþekkingu á lögfræðilegum álitamálum úr viðskiptalífinu, þora ekki að koma fram undir nafni. Er kúgun þöggunar að ná undirtökunum í þjóðfélagsumræðum á Íslandi?

Fjölmiðlar hafa það flestir sem meginreglu að birta frásagnir eftir viðmælendum sínum undir nafni og notast ekki við nafnleynd heimildarmanna, nema í undantekningartilvikum. Þetta er og hefur verið stefna Morgunblaðsins og ég held mér sé óhætt að fullyrða að stefnufesta í þessum efnum hefur bara aukist á undanförnum árum, ef eitthvað er.

Auðvitað þurfa fjölmiðlar að stíga varlega til jarðar þegar þeir birta upplýsingar frá heimildamönnum undir nafnleynd og gæta þess, eins og kostur er, að ekki sé verið að nota fjölmiðilinn til þess að hinn nafnlausi heimildarmaður geti komið höggi á andstæðing.

Hér á árum áður, fyrir svona fimmtán til tuttugu og fimm árum, var langalgengast, að minnsta kosti í dagblöðum hér á Íslandi, að stuðst væri við nafnlausa heimildarmenn þegar verið var að ljóstra upp pólitískum leyndarmálum. Þá var það oft þannig að blaðamaðurinn sem fékk mikilvægar upplýsingar í hendur og lofaði heimildamanni nafnleynd, þurfti að leggjast í talsverða rannsóknarvinnu til þess fá staðfest og tryggja að fréttin væri sönn og um leið að tryggja að ekki væri verið að nota fjölmiðilinn af heimildarmanni, til þess að koma höggi á pólitískan andstæðing, í skjóli nafnleyndar. Þetta var þegar fréttir af vettvangi stjórnmálanna voru miklu meiri en þær eru í dag og eftirsóknarvert þótti að upplýsa um deilur og átök á bak við tjöldin. Auðvitað þykir það enn eftirsóknarvert en pólitíkin hefur einfaldlega mun minna vægi í daglegum fréttum fjölmiðla en hún hafði á árum áður.

Það hafa orðið mjög miklar breytingar í íslensku þjóðfélagi: fréttir af vettvangi stjórnmálanna skipta ekki jafnmiklu máli og hafa ekki mikið vægi í fréttaflórunni, með einstaka spennandi undantekningum þó; fréttir úr heimi viðskiptalífsins hafa fengið sífellt aukið vægi í samræmi við aukið vægi viðskipta og fjármála í samfélaginu.

Iðulega gerist það að viðmælendur blaða- og fréttamanna búa yfir svo þýðingarmiklum upplýsingum, upplýsingum sem varða hag alls almennings, að tekin er ákvörðun um að nota upplýsingarnar og koma þeim á framfæri við almenning, í skjóli nafnleyndar, að ósk viðmælandans.

Að undanförnu hefur mér oft orðið hugsað til þess, hvað er að gerast í íslensku samfélagi, þar sem æ fleiri virðast óttast að koma fram með upplýsingar, skoðanir, ábendingar, túlkanir og greiningar, undir nafni, af ótta við hvaða afleiðingar frásagnir þeirra kæmu til með að hafa á persónulega hagi þeirra.

Erum við að stefna hraðbyri í eitt allsherjar hræðsluþjóðfélag, þar sem fólk þorir ekki að reifa skoðanir sínar eða greina frá þýðingarmiklum upplýsingum vegna þess að frásögnin muni skaða hagsmuni þess til framtíðar, til dæmis þannig að stórlega dragi úr atvinnu- og tekjumöguleikum þess, í kjölfar þess að upplýsingar eru veittar?

Eru hinir nýju valdhafar, þ.e. þeir sem ráða yfir mesta fjármagninu, orðnir svo valdamiklir að þeir geti á æ fleiri sviðum þjóðfélagsins beitt þöggun? Geta þeir komið í veg fyrir eðlilegar umræður um það sem miður fer í þjóðfélaginu og beinlínis bannað, án þess að gera það opinberlega, að þetta eða hitt málið sé tekið á dagskrá? Erum við Íslendingar tilbúnir að sætta okkur við að hér séu ákveðnir dagskrárstjórar þjóðarinnar sem á bak við tjöldin beita sér fyrir því að ekki má ræða viðkvæm mál vegna þess að umræðan eða niðurstaða umræðunnar kann að skaða valdamikla hagsmunaaðila?

Ég ætla að nefna þrjú dæmi þar sem heimildarmenn hafa komið fram undir nafnleynd í íslenskum fjölmiðlum, mjög nýleg. Eitt er frá því í sumar og tvö eru enn nýrri, eða úr fréttum liðinna daga.


Hræðsla sjómanna

Í fyrsta lagi ætla ég að rifja upp fréttaskýringu sem ég skrifaði hér í Morgunblaðið í sumar, hinn 14. júlí, um kvótasvindl, þar sem mismunandi kvótasvindli var lýst og velt upp ýmsum spurningum um það hversu útbreitt svindlið væri, en ekkert fullyrt í þeim efnum. Í fréttaskýringunni sagði m.a.: "Hér verður leitast við að gera grein fyrir ákveðnum aðferðum sem beitt er, þegar glufurnar í kvótakerfinu eru notaðar, eða réttara sagt misnotaðar.

Frásagnirnar eru ýmist frá núverandi og fyrrverandi sjómönnum, núverandi og fyrrverandi skipstjórnarmönnum og núverandi og fyrrverandi útgerðarmönnum og fiskverkendum, sem þekkja af eigin raun hvernig svindlað hefur verið. Eins og gefur að skilja, vilja þessir viðmælendur Morgunblaðsins ekki koma fram undir nafni, hafa sumir jafnvel tekið þátt í svindlinu, en telja nú rétt og skylt að veita þessar upplýsingar."

Þessi fréttaskýring olli í sumar miklu fjaðrafoki og uppnámi þar sem Morgunblaðið varð fyrir mjög harkalegum árásum ýmissa í sjávarútvegi sem töldu að í skjóli nafnleyndar hefði Morgunblaðið vegið að þeim og starfsheiðri þeirra.

Efnisleg umræða um innihald fréttaskýringarinnar og kvótasvindl var hins vegar afskaplega takmörkuð því viðbrögðin einkenndust af upphrópunum, brigslyrðum og gífuryrðum þar sem tilraunir til þöggunar voru augljóslega hafðar að leiðarljósi hjá þeim sem mestra hagsmuna áttu að gæta.

Auðvitað var stofnað til þessarar umræðu af hálfu Morgunblaðsins, vegna þess að hér var um mál að ræða sem skiptir alla þjóðina máli og engin leið að fá viðmælendur til þess að koma fram undir nafni. Ef það er staðreynd að umgengni um sameiginlega auðlind þjóðarinnar, fiskimiðin umhverfis Ísland, er ekki sem skyldi og að verið er að ganga of nærri fiskistofnum okkar með því að veiða of mikið, kasta of miklu á brott, svindla á tegundum og svo framvegis, þá er það ekkert minna en stórkostlegt hagsmunamál fyrir þjóðina.

Ef ekki er hægt að vekja umræðu um það sem aflaga virðist hafa farið í fiskveiðistjórnunarkerfinu, án þess að styðjast við nafnlausar heimildir, er það miður, en það má samt sem ekki verða til þess að drepa niður umræðu, sem gæti, vonandi, orðið til þess að vankantar væru sniðnir af kerfinu, okkur öllum til hagsbóta.


Hræðsla verslunarfólks

Miðvikudaginn 31. október sl. var fréttastofa RÚV og síðdegisútvarp RÚV með umfjöllun þar sem fjallað var um meint svindl Krónunnar, Bónuss og Hagkaupa í verðkönnunum. Öll umfjöllunin, sem var mjög umfangsmikil allan miðvikudaginn og miðvikudagskvöld og hélt svo áfram á fimmtudeginum í RÚV og öðrum fjölmiðlum, byggðist á frásögnum núverandi og fyrrverandi starfsmanna verslana sem lýstu í smáatriðum hvernig stórmarkaðirnir standa að því að slá ryki í augu þeirra sem framkvæma verðkannanir. Meðal annars var sýnt fram á að sérstakt verðkönnunarkjöt er framleitt fyrir verslanir, sem fiskað er upp af botnum frystikistna þegar verðkannanir eru framkvæmdar. Því var einnig haldið fram að samstarf væri milli fyrirtækjanna um vöruverð. Í frásögn Morgunblaðsins á fimmtudag fyrir tíu dögum, af umfjöllun RÚV frá því á miðvikudeginum, segir m.a.: "Enginn þessara starfsmanna vildi koma fram undir nafni og sögðust þeir óttast viðbrögð yfirmanna sinna, núverandi og fyrrverandi."

Starfsmenn lágvöruverðsverslana eru sjálfsagt fæstir á góðum launum en það breytir engu um það að þeir hafa lífsafkomu sína af því að starfa í þessum verslunum, rétt eins og sjómennirnir, sem vikið var að í fyrsta dæminu, hafa afkomu sína af sjósókn.

Þessu starfsfólki verslananna er að því er virðist ofboðið þegar það verður vitni að því á hvern veg reynt er að afvegaleiða þá sem framkvæma verðkannanir, á þann veg að niðurstöður verðkannana endurspegla augljóslega ekki það verð sem neytandanum, viðskiptavininum stendur til boða og væntanlega þar með því sjálfu, þar sem það er haft að leiðarljósi að hafa viðskiptavinina að fíflum og ginna þá til viðskipta á grundvelli rangra upplýsinga úr verðkönnunum.

Það liggur því í augum uppi að álykta sem svo, að þeir starfsmenn stórmarkaða, núverandi og fyrrverandi, sem höfðu samband við fréttastofu RÚV, gerðu svo, því samviska þeirra bauð þeim það.

Persónulega græddu þeir ekkert á frásögninni og þar sem starfsmenn beggja keðjanna höfðu samband við RÚV var ekki um það að ræða að önnur keðjan væri að reyna að koma höggi á hina. Starfsmennirnir vita líka sem er að sá sem kjaftar frá eða klagar, þannig að það kemur sér ekki vel fyrir vinnuveitandann, á ekki upp á pallborðið hjá vinnuveitandanum eftir það og því jafngott fyrir viðkomandi að segja ekkert eða gera sem gæti bent til þess að hann eða hún væri heimildarmaður.

Rétt eins og með sjómennina hef ég fullan skilning á högum verslunarfólksins sem virðist ofboðið og sér sig knúið til þess að upplýsa um það sem er að gerast á vinnustað þess en vill ekki koma fram í dagsljósið og hætta þar með eigin atvinnuöryggi og jafnvel koma í veg fyrir að það eigi kost á atvinnu í verslun í framtíðinni.


Hræðsla lögmanna

Þriðja dæmið sem ég vil tilgreina í þessari umfjöllun er einnig úr Morgunblaðinu frá því fimmtudaginn 1. nóvember. Þar fjallaði Pétur Blöndal blaðamaður í fréttaskýringu um lögfræðileg álitamál sem upp komu varðandi samning um samruna Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy. Í fréttaskýringunni skrifar Pétur m.a.: "Í þessari fréttaskýringu er rætt við virta lögfræðinga á sínu sviði, en þar sem um viðkvæmt mál er að ræða vildu þeir aðeins tjá sig undir nafnleynd. Engu að síður var talin full ástæða til að leyfa þessum lögfræðilegu sjónarmiðum að koma fram, til þess að dýpka umræðuna, þó það væri undir nafnleynd."

Af lestri fréttaskýringarinnar má ráða að það voru engir lögfræðilegir aukvisar sem veltu vöngum yfir lögfræðilegum álitamálum. Eftir lesturinn var ég, og ég veit um marga aðra, miklu nær því að hafa heildstæða mynd af því sem orka kann tvímælis í þeirri samningsgerð um samruna REI og Geysir Green, sem borgarráð ákvað á fimmtudag að hafna.

En víkjum aftur að nafnleynd hinna virtu lögfræðinga. Vitaskuld leitaði Pétur til þeirra, vegna sérfræðilegrar þekkingar þeirra, svo þeir gætu varpað ljósi á lögfræðileg álitamál fyrir lesendur Morgunblaðsins. Þeir urðu við tilmælum Péturs, og miðluðu honum af sérfræðilegum viskubrunni sínum, en í skjóli nafnleyndar.

Nú er það ekki svo að lögspekingar, sem leitað er til vegna sérþekkingar þeirra, þurfi beinlínis að óttast atvinnumissi þótt þeir lýsi sérfræðilegu áliti sínu sem væntanlega er byggt á lagalegum grunni og rökstuðningi. Eða hvað?

Hvað er það sem lögfræðingarnir óttast?

Jú, auðvitað vita þeir sem er, að geysilegir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi ef ekkert verður af samruna REI og Geysir Green. Á bak við bæði félögin og þó einkum og sér í lagi Geysir Green eru valdamiklir auðmenn og fyrirtæki sem eru í miklum samningum og viðskiptum, innanlands sem utan, raunar um allan heim. Nægir í þeim efnum að nefna fyrirtæki eins og FL Group, Baug Group og Glitni.

Skyldi það aðeins hafa hvarflað að lögfræðingunum, að með því að koma fram undir nafni, og standa eða falla með því lögfræðilega áliti sem þeir veittu, væru þeir þar með að stefna eigin framtíðarhagsmunum í voða og fyrirbyggja að þeir gætu í framtíðinni tekið að sér lögfræðileg ráðgjafarstörf, samningsgerð o.þ.h. fyrir þá einstaklinga og fyrirtæki sem mest eiga undir því að ekki verði hróflað við samrunasamningnum?

Spyr sú sem ekki veit.

Raunar hefur stjórnarformaður Geysir Green Energy þegar gefið í skyn og það sterklega, að ef ekkert verður af samruna REI og Geysir Green, muni fyrirtækið höfða skaðabótamál á hendur Reykjavíkurborg. Þau boð hafa verið látin út ganga að þá verði ekki farið fram á neina vasapeninga í skaðabætur, og þar með er auðmaðurinn ljóst og leynt farinn að hafa í hótunum við almenning í höfuðborginni, Reykvíkinga sem eru jú eigendur borgarsjóðs. Hvernig ætlum við Reykvíkingar og fulltrúar okkar í borgarstjórn, handhafar okkar umboðs, að bregðast við slíkum hótunum?

Hvað er til ráða?

Þótt hér hafi aðeins verið drepið á þrjú nýleg, en afar þýðingarmikil dæmi, um það hvernig nauðsynlegt hefur reynst að styðjast við upplýsingar frá heimildarmönnum undir nafnleynd, þá eru dæmin að sjálfsögðu ótal, ótalmörg. Er ekki mál til komið að við Íslendingar bregðumst við þöggunartilraunum þeirra sem vilja ekki bara öllu ráða í viðskiptalífinu á Íslandi, í skjóli auðs síns, heldur einnig því sem er til umræðu hverju sinni og á hvaða forsendum?

Höfundur er blaðamaður.



Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.