Þessi grein birtist í Morgunblaðinu á sínum tima varðandi þær ítrekuðu fullyringar Baugsmanna að ég væri ótrúverðugt vitni:

Það ber ekki allt upp á sama daginn
- eftir Jón Gerald Sullenberger

Vegna augljósrar þráhyggju Hreins Loftssonar og annara stjörnarmannan Baugs um niðurstöðu Héraðsdóms, hafa þeir hvað eftir annað komið opinberlega fram í fjölmiðlum og dæmt mig ótrúverðugt vitni. Og er sá tilgangur gerður til að fá dóm götunar til að taka undir þann málflutning Baugs manna sem hentar þeim og til að skaða mig og ransókn Baugs málsins. Tel ég mig tilneyddan til að skilja staðreyndir frá sögusögnum og svara þessum ótrúverðuga lögmanni.

Hvað var verið að dæma?

Rétt er að fara yfir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2006. Í dómsorði á bls. 28 segir: Eins og fram er komið bendir ýmislegt til þess að Jón Gerald Sullenberger beri þungan hug til ákærða og jafnvel annarra í fjölskyldu hans. Hlýtur það að rýra sönnunargildi vitnisburðar hans. Í sama dómi á blaðsíðu 33 segir. Beinar skjallegar vísbendigar hafa þó komið fram sem styðja framburð Jóns Geralds.

Þar sem dómurinn var birtur í heild sinni í Morgunblaðinu 16. maí 2006 og almeningur gat lesið niðurstöðu hans voru menn sammála um að þetta var ein sérkennilegasta dómsniðurstaða sem menn hafa séð á Íslandi. Ekkert kom fram um að þau gögn sem ég lagði fram, né yfirheyslur yfir mér, hafi ekki verið í samræmi við þann vitnisburð sem fram fór í Héraðsdómi Reykjavikur 21. febrúar 2006. Það gerist í flestum sakamálum að kærandi eða brotaþoli ber engan sérstakan hlýhug í garð sakbornings, án þess að vitnisburðurinn sé allur þurkaður út með einu pennastriki. Ég hef aldrei hótað fjölskyldu þessara manna og er þetta hreinn hugarburður í þeim. Ég skora á Jóhannes Jónsson, Tryggva Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson að leggja þau gögn fram sem styðja þennan þvætting, það eru eingöngu tölvupóstar frá þeim í vitnaskýrslum Ríkislögreglustjóra sem sýna svo um munar að allar persónulegar hótanir hafa komið frá höfuðstöðvum Baugs á Íslandi.

Var Hreinn Loftsson frá vinnu allan tímann?

Við lestur minn á vitnaskýrslum sem teknar voru af Hreini Loftssyni stjórnarformanni Baugs og fyrrum eigenda Alianz á Íslandi, fyrrum aðstoðarmanni Davíðs Oddssonar og fyrrum formanni einkavæðingarnefndar, verð ég að viðurkenna að ég hef áhyggjur af dómstólum, forsætisráðuneytinu, einkavæðingarnefnd og lögmannastéttinni á Íslandi. Hreinn Loftsson sat á umræddum tíma sem stjórnarformaður í Baugi sem þá var almenningshlutafélag og skráð í Kauphöll Íslands, Hreinn segist ekkert vita af hundruðum milljóna sem að streymdu út úr sjóðum Baugs hf. fyrir einkakaupum Jóns Ásgeirs og Gaums á verslunum 10-11, FBA Holding og síðar Arcadia. Hreinn Loftsson opinberar í þessum yfirheyrslum að hann hafði ekki grænan grun um hvað Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson aðhöfðust með sjóði Baugs hf. Hann veit ekki, man ekki eða kannast ekki við neitt. Svo kemur þessi maður fram og hamrar á ótrúverðugleika mínum! Er hann trúverðugur stjórnarformaður í stærsta fyrirtæki á Íslandi? Er það svona sem Íslendingar vilja sjá Kauphöllina misnotaða? Er skorað á Hrein að leggja skýrslutökur af honum sjálfum fram og leyfa þjóðini að lesa þær. Það mætti halda að Hreinn hafi verið frá vinnu meira eða minna allan þann tíma sem hann var stjórnarformaður í Baugi hf.

Rökin ganga ekki upp.

Eins og kom fram í Kastljósi Sjónvarpsins 9. maí 2006 var forstjóra SMS í Færeyjum líka stillt upp á þann hátt sem mér var og látinn búa til tilhæfulausan kredit reikning með sömu dagsetningum og kreditreikningur Nordica. Styður það framburð minn að um það hafi verið krafa Tryggva Jónssonar að ég gerði tilhæfulausan kreditreikning sem síðan hafi verið notaðir til að fegra bókhalds Baugs hf. Þegar Niels Morteinsson gaf skýrslu hjá lögreglu, hélt hann fyrst fram hinni fráleitu kaffiafsláttarskýringu sem Tryggvi hafði sagt honum að nota, en sá að sér í yfirheyrslunni og ákvað að segja sannleikann. Tryggvi flaug á fund Nielsar daginn eftir að honum var sleppt úr varðhaldi lögreglu. Er það líklegt að það hafi verið saklausum manni efst í huga eftir að sleppa úr fangelsi að fara á fund Færeyingsins í Kaupmannahöfn til að ræða kaffiafslátt ? Þetta stafestir Niels Mortensen við yfirheyrlsu í Færeyjum. Er hann líka “ótrúvert vitni” ? Rökin ganga ekki upp.

Kreditreikningurinn

Ég get tekið undir það með Hreinni Loftssyni að 28. ágúst 2001, þegar húsrannsóknin fór fram í höfuðstöðfum Baugs, voru menn ekki með á hreinu hvar kreditreikningurinn frá mér var notaður. Tryggvi Jónsson bað mig um að ég gerði kreditreikninginn upp á 589.980 USD. Kemur það hins vegar skýrt fram við yfirheyrslu að KPMG debitaði hann fyrst en svo var hann síðar kreditaður tvisvar í bókum Baugs. Það er ekki skrýtið að menn væru ruglaðir hjá KPMG því dæmið gekk ekki upp í bókum Baugs hf. Sjálfur lærifaðir KPMG, Tryggvi Jónsson var greinilega í kokkafötunum þann daginn. Það stóð aldrei til að Nordica væri í óheiðalegum viðskiptum við fyritæki Baugs enda var það að beiðni stjórnanda Baugs sem kreditreikningurinn var gefinn út og hafði það ekkert með viðskipti Nordica og Aðfanga að gera.

Hver er sinnar gæfu smiður

Ég harma það líka hvernig þetta mál hefur bitnað á fjölskyldu Tryggva, Ég á líka fjölskyldu. Baugur hefur ofsótt mig og mina fjölskyldu fyrir bandarískum dómstólum, þar sem átti að ganga frá okkur og fyrtækinu okkar. Það skipti ekki máli þó það kostaði tugi milljóna króna enda var það greitt úr sjóðum Baugs Group. Hér var her lögmanna og fylgisveinar Baugs þeim til stuðnings og ekki má gleyma einkaspæjurum sem eltu mig og fjölskyldu mína. Eftir hverju voru menn að leita? Ég bara spyr? Það er nú einu sinni þannig að hver er gæfu sinnar smiður.

Það er augljóst að Baugsmálið hefur tekið nýja stefnu eftir að fjölmiðlar fengu aðgang að gögnum málsins. Vonandi verður slíkt hið sama uppi á teningnum hjá dómurum í málinu og þeir sjái mikilvægi þess að málið fá meðferð á öðrum stöðum en í fjölmiðlum Baugsmanna og að um það verði fjallað af öðrum en aðkeyptum sérfræðingum þeirra. Fjölmiðlar og ráðgjafar Baugs hafa verið duglegir við að gera allt trúverðugt folk ótrúverðug með lygum og blekkingum um það. Mikið er í lagt til þess að sanna sakleysi sitt. En spyrjum að leikslokum því eins og ein góð kona sagði við mig: „Það ber ekki allt upp á sama daginn.”

Höfundur er athafnamaður í Florida.


Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.