Núverandi ritstjóri DV, Reynir Traustason og þáverandi ritstjóri mannlifs (þ.e. áður en Baugur eignaðist mannlif) var ekki hrifinn af þögn Baugsmiðlanna um þetta stærsta dómsmál íslandssögunnar og gagnrýndi DV harkalega.

Hann ritaði eftirfarandi pistill þann 1. maí 2006 sl. um þögn DV og annarra Baugsmiðla varðandi Baugsmálið á www.mannlif.is:

„Vandi DV hins nýja hefur augljóslega verið að Baugur var stærsti eigandinn.

Ekki vegna þess að Baugur fjarstýrði fréttum heldur vegna þess að stjórnendur fyrirtækisins hafa verið stöðugt fréttaefni og miðillinn sem engum mátti hlífa þagði gjarnan eða birti hlutlausar fréttir af gangi mála. Sem sagt steig varlega til jarðar til að meiða ekki eigandann. Þessar hömlur eru ein helsta ástæða þess að DV gat ekki átt langa lífdaga. Á meðan þjóðin beið þess í ofvæni að fá að sjá í DV aðrar hliðar Baugsmálsins þá gerðist ekkert. Og það er svo sem skiljanlegt að ritstjórn DV hafi verið lömuð af innri ritskoðun því það vill enginn míga í bælið sitt að óþörfu.

Þessi vandi blaðsins varð enn augljósari þegar hliðsjón er höfð af því að blaðið hlífði ekki öðrum auðjöfrum og fór mikinn þegar fjallað var um fjölskyldu Björgólfs Guðmundssonar, aðaleiganda Landsbankans, sem þó var ekki líkt því eins spennandi fréttaefni og Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus í allri sinni sápuóperu þar sem við sögu kom ástir, svik og svall á Flórída og allt það annað sem gerir sápuóberu spennandi.

Þetta hefði átt að vera DV efni í fjöldann allan af söluforsíðum en varð ekki. Það má segja að blaðið hafi kafnað í kærleika Baugs.

Þögnin í Baugsmálum hlýtur að hafa verið pirrandi inni á ritstjórninni og eflaust hafa hömlurnar orðið til þess að blaðið fór enn grimmar í mál þar sem Baugur kom ekki nærri, Og þar lá einmitt stóra meinið....“


Þögn DV eftir að Reynir Traustason tók við ritstjórastöðunni á DV er hinsvegar alveg jafn mikil í dag.

Sem og þögn allra Baugsmiðlanna sem fengu talsvert af gögnum frá mér í janúar sl. um óþægilega tölvupósta sem fundust í tölvum Baugsmanna sem og annarra gagna sem stangast algerlega á við framburð þeirra fyrir íslenskum dómstólum.

Það birtist ekkert sem er "skaðlegt" og allir Baugsmiðlarnir hafa "kafnað í kærleika Baugs" svo vitnað sé í orð ritstjóra DV.

(Sjá nánar "Ritskoðun Baugsmiðla")


Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.