Eftirfarandi viðtal við mig birtist í Morgunblaðinu 25. júní 2006 og rétt að birta það hér á þessari síðu.

Eru með kverkatak á íslensku þjóðinni

Upphafsmaðurinn Jón Gerald Sullenberger: "Með sannleikann að vopni mun ég sigra og hef raunar sigrað að stórum hluta, þannig að sakfelling eða sýkna skiptir ekki öllu máli."

Jón Gerald Sullenberger, upphafsmaður Baugsmálsins margumrædda, segir hingað og ekki lengra. Tímabært sé að íslenska þjóðin kynnist því hvernig vinnubrögðum Baugsmenn beita, til þess að ná sínu fram. "Ég get ekki þagað lengur. Sannleikurinn verður að koma í ljós. Þessir menn eru með kverkatak á íslensku þjóðinni og geta ákveðið, einir og sér, hver lifir og hver deyr," segir Jón Gerald m.a. í ítarlegu viðtali við Agnesi Bragadóttur , sem ræddi við hann suður í Flórída, þar sem Jón Gerald fór yfir aðdraganda Baugsmálsins, eins og það horfir við honum, þá lífsreynslu sem undanfarin fjögur ár hafa fært honum og fjölskyldu hans og hvaða lærdóm þau hafa dregið af þessari reynslu sinni.

Þau Jón Gerald og Jóhanna Guðmundsdóttir kona hans, búa ásamt sonum sínum, þeim Tómasi og Símoni, í fallegu húsi í Coral Gables á Miami. Húsið var reist 1924, í spænskum stíl og er að mestu leyti í sinni upprunalegu mynd.

"Þetta er hús með sál og hér líður okkur vel," segja þau Jón Gerald og Jóhanna.

Ég hitti fjölskylduna nokkrum sinnum á meðan á dvöl minni stóð í Flórída og Jón Gerald varði með mér miklum tíma. Hann virðist vera sallarólegur gagnvart þeim réttarhöldum sem framundan eru, þar sem hann hefur stöðu sakbornings, en hefur hingað til haft stöðu vitnis, eins og alþjóð veit.


Með sannleikann að vopni

"Nei, ég hef engar áhyggjur af því. Þetta er bara eitt verkefni enn, sem ég geng í, með sannleikann að vopni, eins og alltaf. Ég tel einfaldlega að sannleikurinn verði að koma í ljós, og það gerir hann ekki, nema ég komi fram og leysi frá skjóðunni. Góður maður sagði eitt sinn við mig setningu sem ég hef gert að minni: Það eru þrír menn sem þú verður ávallt að segja satt: Það er lögfræðingurinn þinn, læknirinn þinn og þú sjálfur.

Með sannleikann að vopni mun ég sigra og hef raunar sigrað að stórum hluta, þannig að sakfelling eða sýkna í þeirri ákæru sem ég sæti nú, skiptir ekki öllu máli.

Raunar finnst mér einnig hægt að skoða þá ákæru sem ég sæti, í jákvæðu ljósi. Ákæru sem Baugsmenn og verjendur þeirra hafa knúið fram af ótrúlegu offorsi. Þar á ég við, að ég hef nú, sem sakborningur, fengið öll málsskjöl í hendur, sem mér býður í grun að gleðji þá Baugsmenn ekki mjög. Þeir hafa því með offorsi, yfirgangi og linnulausum áróðri skotið sig í fótinn, eina ferðina enn.

Mér finnst líka með ólíkindum hvernig verjendur þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar, Jóhannesar Jónssonar og Kristínar Jóhannesdóttur, hafa komið fram, frá því að dómurinn féll í aprílmánuði og verið með ótal yfirlýsingar um að ég sé ótrúverðugt vitni.

Í sömu veru hefur Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, talað æ ofan í æ. í ræðu og riti. Í áróðursskyni hafa þeir endurtekið staðhæfingar um ótrúverðugleika minn í síbylju. Mér finnst rétt að árétta hér í upphafi, að hvergi nokkurs staðar segir í dómnum að ég sé ótrúverðugt vitni, eins og Kristján Kristjánsson sýndi með eftirminnilegum hætti fram á í Kastljósþætti í vor, þar sem hann talaði við Gest Jónsson, verjanda Jóns Ásgeirs. Satt best að segja, fannst mér Kristján taka þennan flinka lögmann í nefið! Í dómnum segir orðrétt á bls. 28: "Eins og fram er komið bendir ýmislegt til þess að Jón Gerald Sullenberger beri þungan hug til ákærða og jafnvel annarra í fjölskyldu hans.

Hlýtur það að rýra sönnunargildi vitnisburðar hans." Í sama dómi á bls. 33 segir ennfremur: "Beinar skjallegar upplýsingar hafa þó komið fram sem styðja framburð Jóns Geralds." Þetta er allt með miklum ólíkindum og afar sérkennileg dómsniðurstaða. Ekkert kom fram í dómnum, um að þau gögn sem ég hafði lagt fram og yfirheyrslurnar yfir mér, hafi ekki verið í samræmi við þann vitnisburð sem veittur var í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. febrúar sl. Ég veit ekki betur en það sé svo í flestum sakamálum, að kærandi eða brotaþoli beri ekki neinn sérstakan hlýhug til sakbornings, án þess að sönnunargildi vitnisburðar kæranda sé úrskurðað rýrt.

Þá finnst mér það líka kostulegt, svo ekki sé meira sagt, að verjendur þeirra Jóns Ásgeirs og Tryggva hafi sagt, að ekki mætti ræða þessi mál í fjölmiðlum heima á Íslandi, því slíkt kalli bara á að dómstóll götunnar dæmi í þessu máli. Þessir sömu menn hafa einhliða ráðið allri fjölmiðlaumræðu um Baugsmálið í allt of langan tíma, með því að skammta upplýsingar, ákveða hvað má ræða og á hvaða forsendum. Auk þess hafa þessir sömu menn ráðið Gallup til þess að framkvæma skoðanakönnun um það hvernig eigi að dæma í þessu máli. Ef það er ekki að kalla fram dómstól götunnar og gera hann virkan, þá veit ég ekki hvað það er!"


Boðinn feitur tékki

Jón Gerald segir að í sínum huga hafi aldrei komið til álita að hætta við að leggja fram ákæru, eftir að hann hafði gert upp hug sinn í þeim efnum í júní 2002.

"Þegar ég var á leiðinni út á flugvöll, í byrjun september 2002, eftir að hafa lagt fram kæru, fékk ég upphringingu, þar sem sagt var við mig, að ef ég hætti við allt saman, drægi kæruna til baka og segði að þetta hefði allt verið á misskilningi byggt, þá biði mín feitur tékki upp á tvær milljónir dollara. Ég sagði að þótt tilboðið hefði hljóðað upp á tíu milljónir dollara, þá hefði það engu breytt," segir Jón Gerald. Bætir svo við: "Í maí 2002 hefðu þeir enn getað bjargað málum, með því að greiða mér það sem mér bar og hreinsa út þann ágreining sem upp var kominn. Ég hef margfarið yfir það í huganum, að Jón Ásgeir hefði svo léttilega getað sagt við Tryggva Jónsson að hann yrði bara að fara til Flórída og klára þessi mál með mér, en þeir kusu að fara aðra leið, beittu mig frekju og yfirgangi og hunsuðu mig svo algjörlega. Þar misreiknuðu þeir sig hrapallega."


Upphafið að viðskiptum

Á meðan Jón Gerald var enn við nám, kynntist hann mönnum sem seinna áttu eftir að hafa mikla viðskiptalega þýðingu, bæði fyrir hann og fyrir þá Bónusfeðga, Jóhannes og Jón Ásgeir. Meðal þeirra voru Kevin Griffin og Jim Schafer, sem voru báðir í áhrifastöðum hjá Wal Mart, annar framkvæmdastjóri en hinn svæðisstjóri. Þeir voru nágrannar þeirra Jóns Geralds og Jóhönnu og segir Jón Gerald að góður vinskapur hafi tekist með þeim.

Hvenær kynntist þú svo Jóni Ásgeiri?

"Það var reyndar mjög skömmu eftir að ég kynntist þeim Kevin Griffin og Jim Schafer. Ég kynntist Jóni Ásgeiri og þáverandi konu hans, Lindu Stefánsdóttur, heima á Íslandi í afmæli hjá Hildi, systur Jóhönnu. Hildur mágkona mín er gift Jóni Erni Stefánssyni sem er bróðir Lindu. Þeir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir voru, þegar þetta var, nýbúnir að stofna Bónus og opna fyrstu Bónus-verslunina.

Við Jón Ásgeir tókum tal saman í þessu afmælisboði og ég fer að segja honum frá því hvað ég sé að gera hér úti á Flórída og segi honum jafnframt frá því að ég eigi góða vini í lykilstöðum hjá verslanakeðjunni Wal Mart. Niðurstaða okkar samtals verður sú, að Jón Ásgeir ákveður að koma og heimsækja okkur í Flórída og það var hans fyrsta ferð til Bandaríkjanna. Hann kom til okkar, ásamt Lindu konu sinni og dóttur þeirra.

Ég skipulagði heimsókn fyrir hann í Wal Mart og kynnti hann fyrir Kevin og Jim Schafer og benti honum á að hér gæti verið gott viðskiptatækifæri, því Wal Mart væri stærsta verslanakeðja í heimi og að við gætum fengið kjör frá þeim, vegna vináttu minnar við þessa menn, sem engum öðrum heima á Íslandi stæði til boða. Við gátum einfaldlega gengið beint inn í þeirra innkaupakerfi og fengið þannig frábært verð. Þér er óhætt að trúa því, að slík kjör stóðu ekki hverjum sem var til boða. Þetta var auðvitað mjög dýrmætt, því á þessum tíma rak Wal Mart um 2.500 verslanir í Bandaríkjunum.

Í framhaldi af þessari fyrstu heimsókn Jóns Ásgeirs fer hann að venja komur sínar hingað til Flórída. Hann kom hingað m.a. með verslunarstjóra frá Bónus og innkaupastjóra. Ég sýndi þeim verslanir Wal Mart og hvernig smásalan væri rekin í Bandaríkjunum.

Vinir mínir Kevin og Jim reyndust miklir haukar í horni og veittu þeim dýrmætar upplýsingar. Við fengum beinan aðgang að innkaupakerfinu og fengum allar vörur á sama verði og Wal Mart-verslanirnar, alveg óháð því hversu lítið magn við keyptum.

Til að byrja með tókum við allar vörur í gegnum eina Wal Mart-verslun hér í Miami og á fimmtudögum og föstudögum voru gámar fyrir Bónus á Íslandi hlaðnir og svo sendir sjóleiðis heim. Þetta voru orðin það mikil viðskipti um miðjan tíunda áratuginn, að ekki gekk lengur að nota þessa verslun hér á Miami. Ég samdi því við höfuðstöðvar Wal Mart í Arkansas um að við keyptum beint í gegnum þá og þeir sendu svo vöruna til Eimskips í Norfolk og þar voru gámarnir hlaðnir.

Heima á Íslandi vakti þetta auðvitað upp ákveðnar spurningar hjá öðrum innflytjendum og heildsalar heima voru síður en svo ánægðir með þetta framtak okkar. Hagkaupsmenn höfðu samband við mig og óskuðu eftir að fara í heimsókn til Wal Mart, því þeim hafði ekki orðið neitt ágengt við að koma á beinu innkaupasambandi við Wal Mart.

Ég fór með þessa menn í heimsókn til höfuðstöðva Wal Mart í Arkansas þar sem við fengum mjög góðar móttökur. Eftir það vissu þeir að ég hafði raunveruleg viðskiptasambönd við þessa risavöxnu viðskiptakeðju, sem var auðvitað fyrst og fremst vegna vináttu minnar við þá Kevin og Jim og einnig við Al Johnson, sem var aðstoðarforstjóri Wal Mart. Í framhaldi af þessu fékk fyrirtæki mitt Nordica sérstakt innkaupanúmer hjá Wal Mart, rétt eins og Nordica væri verslun innan keðjunnar. Það er ekki víst að allir átti sig á hvers konar þýðingu þetta hafði, því í raun og veru vorum við eina fyrirtækið í heiminum, sem ekki tilheyrði Wal Mart, en fengum samt sem áður að nota þeirra einkavörumerki (House Brand), sem þýddi að kostnaðinum var náð niður um nokkur prósentustig, sem er ekkert smáræði í viðskiptum sem þessum."


Fékk staðfestingu

-Svo verður breyting á, þegar sérstök lög um vörumerkingar á vörum frá Bandaríkjunum taka gildi í Evrópu, ekki satt?

"Jú, rétt. Það var um áramótin 1998-1999 að sérmerkja þurfti eftir evrópskum staðli allar vörur sem fluttar voru inn frá Bandaríkjunum. Við byrjuðum á því að heimsækja nokkrar heildsölur heima á Íslandi, til að kanna hvort þeir væru tilbúnir til að vera með okkur í þessum vörumerkingum, en undirtektir voru neikvæðar, því þetta var bæði kostnaðarsamt og tímafrekt. Eftir fundahöld á milli mín, Jóns Ásgeirs og Jóhannesar, var ákveðið að ég færi í það að flytja alla starfsemina frá Norfolk, vörumóttöku og vöruhleðslu í gámana, hingað til Miami.

Ég myndi leigja vöruhús og kaupa allan nauðsynlegan búnað, tæki og tól, til að taka á móti vörunum, merkja þær, endurpakka og senda áfram til Íslands. Þetta var fjárfesting fyrir mig upp á um hálfa milljón dollara. Ég kvaðst ekki vera tilbúinn til þess að ráðast í svona fjárfestingu, nema ég fengi staðfestingu frá þeim um að þeir keyptu vörur frá mér fyrir að lágmarki þrjár milljónir dollara á ári, sem voru þau innkaup sem ég þurfti á að halda, til þess að standa undir fjárfestingunni, miðað við það að álagningin frá mér væri á bilinu 6-8%. Þá staðfestingu fékk ég frá þeim feðgum og réðst við svo búið í fjárfestinguna.

Okkur samdist um það, að ef innkaup þeirra frá Nordica væru innan við þessi lágmarksviðskipti, þá myndu þeir greiða mér mismuninn.
Til þess að gera langa sögu stutta, get ég upplýst að þeir stóðu aldrei við þennan samning. Það kom strax á daginn á árinu 1999 og aftur á árinu 2000 að þeir stóðu ekki við sinn hluta samningsins og innkaup þeirra frá mér voru mun minni en um hafði verið samið. Strax þá var ég kominn í fjárhagslega erfiðleika.

Það verður að halda öllu til haga og auðvitað einnig því sem vel er gert. Þeir greiddu mér, á árinu 2001, 80 þúsund dollara, vegna vanefnda á samningum á árunum 1999 og 2000. Það er rétt að það komi fram. Það hjálpaði mér, en dugði engan veginn til, því ég var kominn með tap upp á fleiri hundruð þúsund dollara.

Þegar grannt er skoðað, þá er myndin ekki sú, sem þeir Bónusfeðgar hafa alltaf viljað vera láta, þ.e. að þeir tveir eigi allan heiðurinn af því að matvöruverð á Íslandi lækkaði, með tilkomu Bónusverslananna. Það lækkaði, það er ekki spurning, en það hafði ekki lítil áhrif hvernig hagstæð innkaup þeirra í gegnum Simons Agitur í Danmörku og í gegnum Nordica, fyrirtæki mitt hér í Bandaríkjunum, gerðu þetta mögulegt, að ekki sé nú minnst á margt það frábæra starfsfólk sem Bónus hafði á að skipa heima á Íslandi, sem vann hörðum höndum myrkranna á milli. Um þetta hafa feðgarnir alla tíð þagað þunnu hljóði og baðað sig einir í ljómanum og látið eins og þeir tveir væru bjargvættir þjóðarinnar.

Auðvitað sjáum við það nú, sem við ekki sáum þá, að þeir voru að nota okkur, bæði Nordica og Simons Agitur í Danmörku, ekki síst til þess að ógna heildsölum heima á Íslandi og ná niður innkaupsverðinu frá þeim. Það er staðreynd, enda staðfestir Jón Ásgeir það í yfirheyrslunum hjá Ríkislögreglustjóra. Baugur fékk sérstaklega góð kjör frá heildsölum á Íslandi, því þeir höfðu okkur og gátu alltaf vísað til okkar og okkar innkaupagetu, ef þeir voru ekki ánægðir með verðið sem þeim stóð til boða hjá íslensku heildsölunum."


Óhagstæð gengisþróun

-Hafði gengisþróun á þessum tíma einhver áhrif á það, að innkaupin frá Baugi voru ekki jafnmikil og um hafði verið samið, því dollarinn hækkaði jú upp úr öllu valdi, ekki satt?

"Það er rétt, gengisþróunin var mjög óhagstæð árið 2000 og ég tel engan vafa leika á að hún hafði áhrif á það, að stórlega dró úr innkaupunum. En það er ekki nema hluti af skýringunni. Ég reiknaði út álagninguna hjá Baugi og gerði verðkönnun í verslunum Baugs á Íslandi. Ég tók verðið eins og það var frá Nordica með 6-8% álagningu og reiknaði svo út hver álagningin var hjá Baugsverslunum á þær vörur sem þeir keyptu frá mér og satt best að segja, þá var útkoman ótrúleg, því álagningin var svo há og fjarri öllu sem þeir höfðu gefið til kynna. Um þetta á ég öll gögn, þar sem fram kemur að álagningin hjá þeim var á bilinu 42%, þar sem hún var lægst, þ.e. í Bónusverslununum og upp í 87% í Nýkaup.

Meðalálagning á vörum frá mér í Baugs verslunum var 70%, þannig að það er ekki beinlínis hægt að segja að þeir hafi ekki verið að hagnast á þessum viðskiptum. Þetta var nú svona, þrátt fyrir hátt gengi dollars, þannig að það verður einnig að leita skýringa á því hvers vegna svo lítið var keypt inn frá Bandaríkjunum hjá Baugi."

Jón Gerald segir að hann hafi eytt gífurlegri orku, tíma og peningum í það á árunum 2000 og 2001, að reyna að fá Baugsmenn til að standa við gerða samninga. Þeir hafi verið algerir sérfræðingar í að vísa hver á annan. Enginn hafi viljað axla ábyrgð á því hvernig málum var komið. "Ég flaug margsinnis til Íslands á þessum árum, fór yfir málin með Jóni Ásgeiri og Tryggva, með verslunar- og innkaupastjórum og sendi, ég veit ekki hvað marga tölvupósta, þar sem ég lýsti ástandinu og kallaði eftir samningsefndum. Allt án árangurs.

Til að byrja með voru samskiptin ávallt á milli mín og Jóns Ásgeirs. Á árinu 2000 er Jón Ásgeir meira og minna búinn að firra sig allri ábyrgð af viðskiptum við Nordica og búinn að koma samskiptunum yfir á Tryggva Jónsson. Snemma árs 2002 fer Tryggvi svo sömu leið og Jón Ásgeir, firrir sig allri ábyrgð og vísar á Árna Pétur Jónsson hjá Aðföngum og svo benda þeir alltaf hver á annan og enginn veit hvar ábyrgðin liggur. Heldur þú að þetta sé einhver hemja?"


Árshátíð aðstoðarforstjóra

"Á þessum tíma eru þeir Jón Ásgeir og Tryggvi tíðir gestir hér á Flórída. Þeir komu hingað með fjöldann allan af viðskiptamönnum sínum. Þá var báturinn kominn í spilið og þeir þurftu á mér að halda til þess að aðstoða við móttöku viðskiptamannanna, sem þáðu partíboðin um borð í Thee Viking. Þeir komu hingað með bankastjórnendur, bæði frá Íslandsbanka og KB banka, stórlaxa úr viðskiptalífinu og stjórnendur lífeyrissjóða svo dæmi séu nefnd. Það fer ekkert á milli mála, að þetta var aðferð Jóns Ásgeirs til þess að ná til þessara manna, svo hann gæti nýtt sér þá, í viðskiptum heima á Íslandi.

Um borð í bátnum var ástundaður lífsstíll, sem fæstir þekkja, sem betur fer og þar bundust menn órjúfanlegum böndum. Svo annars vegar var ég á útopnu að aðstoða þá við partíhöld og hins vegar var ég stöðugt að þrýsta á um efndir á viðskiptasamningum."

Jón Gerald sýnir mér tölvupóst og segir:

"Þennan tölvupóst fékk ég frá Tryggva Jónssyni í maí 2001. Hann var jafnframt sendur til þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra KB banka, Bjarna Ármannssonar, forstjóra Íslandsbanka, Þorsteins M. Jónssonar, forstjóra Vífilfells, Sigurðar Einarssonar, starfandi stjórnarformanns KB banka og Þórðar Más Jóhannessonar, forstjóra Straums fjárfestingarbanka. Tryggvi kallaði þennan tölvupóst árshátíð aðstoðarforstjóra. Þar skrifar hann:

"Nú er skipulagning árshátíðar aðstoðarforstjóra komin í fullan gang. Sem fyrr verður um tímamótaviðburð að ræða. Að vanda er helstu aðstoðarforstjórum boðið á árshátíðina, en það eru aðeins tveir sem flokkast undir það, ásamt nokkrum wanna-be-aðstoðarforstjórum. Dagskráin er í stórum dráttum þannig. Flogið verður til Miami miðvikudaginn 25. júlí og til baka sunnudaginn 29. júlí. Aðrir dagskrárliðir eru trúnaðarmál. Þó verður boðið upp á símahvíld, þ.e.a.s. maður hallar höfðinu fram og hvílir sig frá símanum á leiðinni frá Baltimore til Miami. Aðeins flugdólgum verður heimil þátttaka. Aðrir svokallaðir Stórtemplarar eru beðnir um að halda sig heima við og reyta arfa í garðinum heima hjá sér. Taka frá dagana strax og láta vita um þátttöku. Kveðja Tryggvi Jónsson."

Jón Gerald segir að þessi tölvupóstur sé bara eitt lítið dæmi um það hvernig Baugsmenn notuðu bátinn.

Rétt er að geta þess hér, að í þessa sérstöku ferð fóru ekki þeir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka (Glitnis) og Þórður Már Jóhannesson, þá forstjóri Straums.


Varð stöðugt þykkjuþyngri

Jón Gerald segist stöðugt hafa orðið þykkjuþyngri vegna samskiptanna við þá Jón Ásgeir og Tryggva. Hann hafi talað svo ótrúlega lengi fyrir daufum eyrum. Hann rifjar upp að í janúarlok 2002 hafi Jón Ásgeir hringt í sig, en þá hafði hann án árangurs reynt að ná eyrum Jóns Ásgeirs svo mánuðum skipti. "Jón Ásgeir segist ætla að halda stefnumótunarfund á Miami, hann sé að koma með hóp manna og spyr hvort báturinn verði ekki til reiðu og hvort við getum ekki farið með þetta fólk út á bátnum.

Ég segi að það verði í lagi. Þeir komu svo hingað niður eftir um mánaðamótin og við fórum út á bátnum. Ég var þegar hér var komið sögu svo ósáttur við Jón Ásgeir að ég yrti ekki á hann. Með honum í þessari ferð voru Tryggvi Jónsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Jim Schafer og hópur lögfræðinga frá New York. Þegar við komum til baka úr bátsferðinni, þá stoppa ég Tryggva og segi: "Tryggvi, þetta gengur ekki lengur. Ég er búinn að fá mig fullsaddan af þessum samskiptum við ykkur og á þessari framkomu ykkar."

Hann segist vilja hitta mig á hótelinu þar sem þeir gistu daginn eftir.

Ég hitti Tryggva á hótelinu daginn eftir og þegar hann sér mig koma, tekur hann upp símann og hringir. Rétt á eftir kemur Jón Ásgeir labbandi inn frá sundlauginni og ég virði hann ekki viðlits. Ég fer í gegnum allt bókhaldið og uppgjörið með Tryggva og geri honum grein fyrir því að ég sé búinn að fá nóg.

Þeir þurfi einfaldlega að klára sín mál gagnvart mér, því ég nenni ekki lengur að eiga samskipti við þá. Að fundi loknum stendur Tryggvi á fætur, tekur í höndina á mér og segir "Jón, hafðu ekki áhyggjur af þessu. Við klárum þetta í vikunni." Ég svara: "OK Tryggvi, gott mál," og labba út.

Þegar ég er kominn út úr anddyri hótelsins, þá er bankað í öxl mér og ég sný mér við og sé að þar er kominn Jón Ásgeir. Hann réttir fram höndina og segir: "Jón, fyrirgefðu. Við klárum þetta í vikunni." Ég svara: "Gott Jón. Ég er ánægður að heyra það," og fer.

Þegar ég er að setjast inn í bílinn minn fyrir utan hótelið kallar Tryggvi í mig og segist hafa gleymt að nefna það við mig, að hann væri búinn að panta fund með lögmanni á Miami og biður mig að hringja í Jóhönnu konu mína og biðja hana að koma með mér á fundinn. Ég spurði um hvað hann væri að tala, en hann sagðist vilja ræða efni málsins hjá lögfræðingnum.

Þegar við mættum á fundinn hjá lögmanninum var Tryggvi þar. Hann segir okkur að hann hafi ráðið þennan lögmann til þess að sjá um að færa skráninguna á bátnum okkar, Thee Viking, yfir á félag í eigu þeirra feðga Jóhannesar og Jóns Ásgeirs, Miramar, sem skrásett er á Bahamaeyjum. Félagið höfðu þeir feðgar stofnað árið 2000 og ástæða þess að ég vissi af því var einfaldlega sú, að þeir fengu mig til þess að kaupa flugmiðana fyrir þá Tryggva, Jón Ásgeir og Jóhannes, til Bahamaeyja, með kreditkorti míns fyrirtækis, Nordica. Þeir fóru sérstaka ferð til Bahamaeyja á fund KPMG, til þess að stofna félagið Miramar. Þessi ferð þeirra var svo mikið leyndarmál að enginn mátti vita af henni. Því var ég fenginn til þess að kaupa farmiðana og senda svo bara reikning heim til Íslands vegna ferðakostnaðar og Baugur greiddi."


Þetta var klárlega hótun

-Þú hefur alltaf sagt að þú hafir átt bátinn í félagi við þá feðga, en þeir hafa reyndar haldið því fram að þeir ættu ekkert í bátnum. Ertu að segja, að þeir hafi ætlað að færa skrásetninguna á bátnum, sem þú áttir að minnsta kosti þriðjung í, yfir í félag sem var bara í þeirra eigu?

"Já, ég er að segja það. Ég var mjög ósáttur við þessar hugmyndir, enda hafði Baugur staðið straum af öllum kostnaði sem féll á þá feðga vegna Thee Viking frá árinu 1999 til ársins 2002. Ég sagði við Tryggva að þetta kæmi ekki til greina hvað mig varðaði. Í fyrsta lagi þyrftu þeir hjá Baugi að ganga frá óuppgerðum málum við Nordica og gera upp við mig, það sem þeir skulduðu mér, en það var þá um 350 þúsund dollarar. Að því búnu þyrftu þeir að taka yfir lánið sem hvíldi á bátnum og ég var persónulega ábyrgur fyrir. Þá fyrst gætu þeir keypt út minn hlut í bátnum og hirt hann við svo búið. Eftir þetta stóð ég á fætur og við Jóhanna gengum út.

Í framhaldi af þessum makalausa fundi kom hinn frægi tölvupóstur frá Jóni Ásgeiri, 2. febrúar 2002, þar sem hann segir að engar greiðslur muni berast Nordica fyrr en að ég sé búinn að ganga frá Thee Viking-málinu við Tryggva Jónsson. Þetta var klárlega hótun, þar sem mér var stillt upp við vegg. Ég var búinn að standa við allar mínar skuldbindingar, gera allt sem ég hafði lofað þeim að gera, en þeir höfðu svikið mig allan tímann. Hvers konar dómgreindarleysi var það eiginlega, að láta sér detta í hug, að ég léti það yfir mig ganga, að færa bátinn yfir í félag í þeirra eigu og að ég ætti síðan bara að treysta því að þeir tækju yfir lánið á bátnum, sem ég persónulega var ábyrgur fyrir? Við erum ekki að tala um neina smápeninga, því lánið á bátnum var yfir hálf milljón dollara."

Jón Gerald segir að í framhaldi af framkvæmdastjórnarfundi hjá Baugi í febrúar 2002 hafi hann fengið tölvupóst frá Árna Pétri Jónssyni, hinn 1. mars. Þar segir Árni Pétur m.a.: "Matvörusviðið mun ekki greiða neitt "aukalega" vegna síðasta árs. Um efndir á meintum loforðum verður Jón Gerald að eiga við Tryggva Jónsson. Ekki verður lofað neinum viðskiptum fyrir árið 2002 en unnið verði á 15% þóknun fyrir þau viðskipti sem eiga sér stað eftir 1. mars 2002. Unnið verði að því að koma á beinum samböndum við birgja í USA. Lagt er til við Jón Gerald að hann loki vöruhúsinu sem fyrst, það er þó auðvitað hans mál (leturbreyting blaðamanns). Farið verði í viðræður við Jón Gerald um greiðslu fyrir að koma vörumerkjunum yfir til Baugs, hugsanleg kaup á merkingartækjum og sá möguleiki skoðaður að Jón Gerald vinni fyrir Baug á prósentuþóknun. Ábyrgðir verði endurnýjaðar en þá á milli Aðfanga og birgja án milligöngu Nordica."

Hinn 8. maí 2002 fékk Jón Gerald tölvupóst frá Tryggva þar sem hann segir m.a.: "Hvorki ég né Jón Ásgeir getum haft áhrif á framtíðarviðskipti. ... En, sem sagt, línan hefur ekki breyst. Gerðu ráð fyrir að loka vöruhúsinu." Jón Gerald svarar Tryggva með stuttum tölvupósti, þar sem hann segir m.a.: "Eftir samtal ykkar veit Jóhannes að ég mun tapa öllu. Meira að segja húsið, allt fer, eingöngu út af því að ég er heiðarlegur og hef staðið við allt sem ég hafði lofað að framkvæma fyrir ykkur og treysti því sem mér var sagt."


Kornið sem fyllti mælinn

-Þegar hér er komið sögu er stutt í að þú ákveðir að leggja fram kæru, ekki satt?

"Þarna er mér orðið heitt í hamsi. Í fyrsta lagi verð ég vitni að því hvernig þeir komu fram við Jim Schafer, þann mæta mann og vin minn. Hvernig þeir lugu upp á hann opinberlega heima á Íslandi, eftir að hann neitaði að taka þátt í bókhaldssvindli með Bill's Dollar Stores. Það er rétt að geta þess, að eftir að Jim Schafer labbaði út úr Bill's Dollar Stores þá fór hann í mál við Baug og hann vann það mál. Það tók Baugsmenn sex mánuði að keyra fyrirtækið í þrot. Þetta varð stærsta gjaldþrot í íslenskri viðskiptasögu, samtals þá upp á 80 milljónir dollara.

Þess utan hafði ekkert þokast í mínum málum, því þeir sögðust sig hvergi hreyfa, fyrr en ég væri búinn að færa skráningu bátsins yfir á Miramar.

Við Jóhanna erum svo að ræða þessi mál fram og aftur í júníbyrjun 2002, eins og reyndar oft áður. Ég, eins og alltaf, er að verja þá Baugsmenn, taka upp hanskann fyrir þá og bera blak af þeim, en hún segir það, sem hún hafði reyndar sagt oft áður, að það sé ekki hægt að treysta þessum mönnum, ég verði að fara að átta mig á því; þeir standi aldrei við það sem þeir hafi lofað. Í þessu samtali okkar segir Jóhanna mér loks, að Jón Ásgeir hafi áreitt sig, heima á Íslandi sumarið 2001 og áður hér í Flórída.

Þetta hafi hún aldrei ætlað að segja mér, en hún sagði, að nú sæi hún enga aðra leið en þá að greina mér frá þessu, til þess að ég áttaði mig á því að þeim væri ekki treystandi.

Ég held að einshvers konar sprenging hafi orðið innra með mér. Þetta var kornið sem fyllti mælinn. Ég sagði, hingað og ekki lengra, og ákvað að ég myndi ráða mér lögmann á Íslandi og öll okkar samskipti yrðu að fara í gegnum hann.

Ég var mjög sár og reiður út í Jón Ásgeir. Hann hafði ekki bara misnotað mig og brotið niður allt traust sem ég hafði borið til hans og föður hans. Hann hafði ráðist að því sem var mér dýrmætast og helgast, hjónabandi mínu og fjölskyldu. Hann reyndi að vaða inn á heimili mitt á skítugum skónum.

Ég reyndi þegar í stað að hringja í Jón Ásgeir, en náði ekki sambandi við hann og hringdi því í Jóhannes föður hans og sagði við hann að nú væri ég búinn að fá mig fullsaddan á framkomu sonar hans og myndi ráða mér lögmann og orðaði það svo við Jóhannes, "I am going to take him down" og átti auðvitað við að ég ætlaði mér að upplýsa lögreglu um það hvernig þeir Baugsfeðgar voru að misnota almenningshlutafélagið Baug sjálfum sér til persónulegs framdráttar, eins og ég hef margsinnis útskýrt.

Enda sagði ég við hann að öll okkar samskipti á Íslandi færu hér eftir fram í gegnum lögmann minn, en þar hygðist ég leita réttar míns. Þannig lauk þessum samskiptum."

Jón Gerald segir að hann hafi lítið þekkt til lögmanna á Íslandi, þar sem hann hafði búið á Flórída síðan 1986. Hann hafi haft miklar áhyggjur af því hverjum hann gæti treyst og hverjum ekki. Hann hafi vitað það frá fyrstu hendi hvernig Baugsmenn unnu, hverjir tengdust hverjum og hvað peningar gætu gert mönnum. Hann segir að þegar hann fyrst hafi fengið ábendingu um Jón Steinar Gunnlaugsson, sem góðan lögmann, hafi hann ekki vitað hver maðurinn væri og ekkert þekkt til hans. Jón Gerald hafi leitað ráða bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hann hafi m.a. spurt Jónínu Benediktsdóttur hvort hún þekkti til Jóns Steinars.

"Síðan kemur það í ljós, eftir að tölvupósti Jónínu Benediktsdóttur hafði verið stolið og hann birtur í Fréttablaðinu, að hún hafði haft samband við Styrmi Gunnarsson hjá Morgunblaðinu og spurt hann að því hvort hægt væri að treysta Jóni Steinari. Þetta er nú öll sagan á bak við það hvernig ég réð mér lögfræðing og allt þetta bull sem hefur verið í umræðunni frá því haustið 2002 um að það hafi verið pólitík, sem gerði það að verkum, að ráðist var í húsrannsókn hjá Baugi og að Davíð Oddsson hafi verið þar að baki, er slík fásinna, að það tekur engu tali."

Jón Gerald segir að þegar hann hafi haft samband við Jón Steinar þá hafi hann greint honum frá því að hann vildi höfða mál á hendur Baugi fyrir samningsbrot og ógreiddar vörusendingar.

Jón Steinar hafi farið yfir þau gögn sem hann sendi honum og komist að þeirri niðurstöðu að Jón Gerald hefði tvímælalaust tilefni til þess að höfða mál á hendur Baugsmönnum og kvaðst reiðubúinn að höfða slíkt mál fyrir héraðsdómi. Jón Gerald kveðst á sama tíma hafa sagt Jóni Steinari frá því að hann vissi til þess að forsvarsmenn Baugs væru að misnota almenningshlutafélagið Baug, sér til persónulegs framdráttar. Hann hafi sýnt honum tölvupóstana frá Tryggva Jónssyni og uppgjörið á bátnum og síðan spurt hann ráða um það hvernig hann ætti að snúa sér.

Jón Steinar hafi sagt honum að hann ætti tvo kosti, annars vegar að leggja málið til hliðar og gleyma því og hins vegar að kæra þá til Ríkislögreglustjóra.

"Hann sagði einnig að ef ég veldi að kæra, þá gæti það orðið erfitt mál fyrir mig persónulega, því ég gæti átt það yfir höfði mér að vera einnig ákærður og hann spurði mig, hvort ég væri virkilega reiðubúinn til þess að taka þá áhættu.

Ég sagði honum að ég vildi fara með þetta mál alla leið. Ég yrði að láta yfirvöld fá upplýsingar um hvernig forstjórar Baugs, sem þá var almenningshlutafélag, væru að misnota fyrirtækið sér til framdráttar. Mér fannst þetta vera mjög einfalt mál. Jón Steinar hringdi við svo búið til Ríkislögreglustjóra og sagði þeim frá erindi mínu."

Jón Gerald segist strax hafa haft áhyggjur af því að Baugsmenn væru búnir að taka til hjá sér í bókhaldinu, því hann var búinn að segja þeim að hann ætlaði í mál við þá.

"Næsta morgun var ég tekinn í yfirheyrslu hjá Ríkislögreglustjóra. Yfirheyrslan stóð í tvo heila daga og ég lagði öll mín gögn á borðið hjá RLS. Það var enginn sem vissi um þetta nema Jóhanna konan mín og Jón Steinar lögmaðurinn minn.

Hinn 28. ágúst 2002, um kvöldið, fékk ég símtal frá Guðmundi Inga Hjartarsyni vini mínum, sem kallaður er Dommi. Guðmundi Inga kynntist ég í gegnum Jón Ásgeir, en þeir eru æskuvinir. Hann segist verða að tala við mig, en hann geti það ekki í gengum síma, því hann haldi að það sé verið að hlera símann sinn. Ég vissi ekkert um hvað hann var að tala en sagðist mundu sækja hann út á Nes.

Þegar hann er sestur inn í bílinn hjá mér segir hann: "Jón, þú veist ekki hvað er búið að gerast í dag. Hann Jón Ásgeir er búinn að vera á línunni hjá mér í allan dag frá London og ég og annar starfsmaður fyrirtækisins erum búnir að vera að eyða öllum tölvugögnum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar úr tölvuservernum okkar."

Ég hafði ekki sagt honum neitt um það, að það væri ég sem hefði kært Baugsmenn. Svo förum við niður í bæ og fáum okkur að borða. Þá fæ ég símtal frá embætti Ríkislögreglustjóra, þar sem mér er sagt að þeir séu að leita að Guðmundi Inga, sem sat beint á móti mér á veitingastaðnum. Mér var mjög brugðið við þetta og brá mér afsíðis og sagði þeim að við Guðmundur værum úti að borða saman.

Lögreglan vildi koma beint á veitingastaðinn og sækja hann, en ég tók það ekki í mál. Ég sagði þeim, að ég væri að úti að borða með vini mínum og ég myndi bara keyra hann beint heim. Það kæmi ekki til greina að þeir kæmu á veitingastaðinn að sækja hann. Ég sagði Domma svo að ég þyrfti að fara þegar í stað og keyrði hann aftur heim. Svo frétti ég að lögreglan hefði sótt hann þangað. Það var ótrúlega erfið reynsla fyrir mig, að geta ekki sagt þessum vini mín hvað væri í gangi.

Guðmundur Ingi, vinur minn, hafði sem sagt varið deginum í að eyða öllum tölvupóstum Jóns Ásgeirs og Tryggva. Það kom nefnilega í ljós í lögreglurannsókninni, að allur tölvupóstur starfsmanna Baugs var geymdur í höfuðstöðvum Baugs, nema tölvupóstur forstjórans, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og aðstoðarforstjórans, Tryggva Jónssonar. Hann var vistaður hjá lítilli tölvunetþjónustu í Síðumúlanum, sem er í eigu Domma. Hvers vegna skyldi það nú hafa verið? Ef menn eru með hreint borð og hafa ekkert að fela, hvers vegna þurfti þá að verja heilum degi í að eyða póstum þessara manna?

Ég verð að segja, að mér finnst það með ólíkindum að forstjóri og aðstoðarforstjóri stærsta fyrirtækis landsins, sem var þá almenningshlutafélag, skuli hafa þurft að vista tölvupósta sína í fyrirtæki úti í bæ. Mér finnst það vera stórfurðulegur háttur á vörslu gagna, sérstaklega þegar haft er í huga að Baugur varð almenningshlutafélag og fór á markað 1998, en þetta kemur á daginn heilum fjórum árum síðar, haustið 2002.

Jafnframt vildi svo einkennilega til, að þegar Jón Ásgeir var kvaddur í yfirheyrslu, þá sagði hann frá því að hann væri búinn að týna tölvunni sinni, og síðan hefur ekkert til hennar spurst! Er í lagi með þessa menn? Að mínu mati voru þetta ekki mjög trúverðugir forstjórar í almenningshlutafélagi.

Raunar var staðreynd málsins sú, að þótt búið væri að gera meiriháttar tiltekt í flestum tölvum eins og hjá KPMG, Jóni Ásgeiri og fleirum og búið að eyða mörgum gögnum sem skiptu máli, þá voru enn eftir mikilvæg gögn í fartölvu Trygga Jónssonar. Gárungarnir í dag hafa það í flimtingum að það hafi gleymst að eyða Tryggva! Það er líka mjög athyglisvert, þegar rannsóknargögn málsins eru lesin, að þar eru allir þeir sem til rannsóknar eru hjá Ríkislögreglustjóra búnir að tjá sig fram og til baka um tölvupósta, sem þeir halda svo alltaf fram að séu ekki til, þar sem margir póstanna hafa bara fundist í minni tölvu. Hvernig geta menn tjáð sig um tölvupósta sem ekki eru til?

Þegar Jón Ásgeir mætti svo til yfirheyrslu hjá Ríkislögreglustjóra daginn eftir, hinn 29. ágúst, þá mætti hann með kreditreikninginn margumtalaða, sem ekki hafði komið í leitirnar við húsrannsókn Ríkislögreglustjóra. Jón Ásgeir hafði eins og kunnugt er flogið heim frá Bretlandi, þar sem hann var í samningaviðræðum við Mr. Green um kaup á Arcadia. Lögreglan sagði honum að ef hann kæmi ekki heim til yfirheyrslu, þá yrði Tryggva Jónssyni ekki sleppt úr gæsluvarðhaldi. Menn voru mjög hissa á því að Jón Ásgeir skyldi mæta með kreditreikninginn, en skýringin á því var auðvitað sú, að Kristín, systir hans, hafði látið hann vita að lögreglan væri að leita að þessum reikningi. Síðar kom svo á daginn að kreditreikningurinn hafði verið settur á biðreikning hjá KPMG og var því hvergi að finna í bókhaldi Baugs. Þar hafði hann beðið í rúmt ár." | agnes@mbl.is


Engin silfurskeið

Jón Gerald Sullenberger er ekki fæddur með silfurskeið í munni. Jón Gerald fæddist í Reykjavík 24. júní 1964 á Jónsmessunni. Frumbernska hans og uppvaxtarár voru ekki með hefðbundnum hætti - það er síst of djúpt í árinni tekið að segja, að hann hafi verið rændur æskunni. Fyrstu æviárin bjó hann með foreldrum sínum í Washington, en foreldrar hans, Guðlaug Gunnarsdóttir og Gerald E. Sullenberger, kynntust í Reykjavík, þegar faðir hans starfaði sem hermaður við sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi.

Á fjórða ári kom hann heim til Íslands með móður sinni og var þá komið fyrir í fóstri vestur í bæ. Þegar fósturforeldrar hans fluttu til Danmerkur var honum komið fyrir á öðru fósturheimili í Blesugróf, þar sem honum leið ekki vel og skömmu síðar á öðru fósturheimili í Mosfellsbæ.

Þá var hann sex ára gamall. Þar óx hann upp við mikið harðræði og 12 ára gamall strauk hann þaðan. Hjólaði til Reykjavíkur og bjó eftir það með móður sinni, sem hann kynntist þá fyrst. Jón Gerald kynntist föður sínum ekki fyrr en eftir að hann flutti til Bandaríkjanna, en þá leitaði hann Gerald E. Sullenberger uppi og komst m.a. að því að hann á yngri bandarískan hálfbróður. Jón Gerald á einnig eldri hálfsystur, Bryndísi - þau eru sammæðra.

Það má kannski leita skýringa í bernsku Jóns Geralds og uppvexti, á ástæðum þess, að hann tók þá ákvörðun fyrir fjórum árum að segja Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Baugsveldinu stríð á hendur. Hann segir að sér hafi fundist Jón Ásgeir hafa gert tilraun til þess að vega að rótum alls þess sem honum er dýrmætast og helgast. Þetta hafi verið hans viðbrögð þegar Jóhanna kona hans sagði honum frá því að Jón Ásgeir hafi áreitt sig.

Þegar ég hitti Jón Gerald í faðmi fjölskyldunnar, í Coral Gables á Flórída, fæ ég nýjan skilning á því hvers vegna hann sagði Baugsveldinu stríð á hendur. Jón Gerald er kvæntur Jóhönnu Guðmundsdóttur og eiga þau synina Tómas, að verða 17 ára og Símon, nýorðinn 15 ára. Fyrir á Jón Gerald son, Róbert Gerald, 22 ára, sem býr heima á Íslandi.

Fjölskyldan er Jóni Gerald allt, það fer ekki á milli mála. Það þarf ekki að verja löngum tíma með fjórmenningunum, til þess að sjá að fjölskyldan, samvera, samstaða, hlýja, virðing og væntumþykja eru í heiðri höfð í þessu litla íslenska samfélagi suður á Flórída. Íslenskt er það, þrátt fyrir 20 ára búsetu í Bandaríkjunum og tilhneigingu strákanna, einkum Símonar, til þess að grípa fyrst til enskunnar. Ræturnar eru rammíslenskar og þannig á það að vera, segir Jóhanna stolt.

Jón Gerald hefur búið sér og sínum lífið sem hann sjálfur fór á mis við í uppvextinum, og við því skyldi enginn reyna að hrófla, því sá sem það reynir, finnur fyrir Jón Gerald í vígahug. Það hafa Baugsmenn mátt reyna undanfarin ár.

Jón Gerald lærði matreiðslu heima á Íslandi fyrir margt löngu. Að því loknu lá leiðin til Sviss, þar sem hann bætti við sig í faginu og nam hótelrekstur. Því næst lá leiðin til Flórída, í Florida International University, þar sem hann lauk námi í Hospitality Management (hótel- og rekstrarfræði). Hann og Jóhanna kynntust í London árið 1986, ástin blómstraði og skömmu síðar, eða vorið 1987, kom hún að heimsækja hann í Flórída og þau hafa verið saman síðan.

Jóhanna er fædd og uppalin á Seltjarnarnesi og þar er mér sagt að hún hafi ávallt þótt ein allra fallegasta stúlkan, sem allir strákar renndu hýru auga til. Það eru áreiðanlega engar ýkjur, því Jóhanna er stórglæsileg og frá henni stafar bæði innri ró og hlýju. Hennar helsta stolt eru augljóslega drengirnir, Tómas og Símon. Tómas, sá eldri, er staðráðinn í að verða læknir og Símon hefur tekið stefnuna á flugmanninn. Er reyndar búinn með sextán flugtíma nú þegar, 15 ára síðan 25. apríl sl.! En gests augað stöðvar ekki síður við það hversu miklir félagar og vinir þau hjónin eru.

Segja reyndar bæði, að undanfarin fjögur ár hafi gert þau enn nánari og að samband þeirra hafi bara herst og orðið traustara í eldi þeirra átaka sem þau hafa gengið í gegnum.

Unga parið byrjaði búskap sinn í lítilli leiguíbúð á Miami, Jóhanna vann við förðun, en hún hafði lært förðun og fékk fljótlega vinnu við iðn sína og Jón Gerald hjólaði í skólann á gömlu lánsreiðhjóli og lagði sig hart fram við námið, sem hann lauk 1991. "Við áttum náttúrlega ekki neitt. Höfðum um 500 dollara á mánuði úr að spila, og af því fóru 270 dollarar í húsaleiguna," rifjar Jón Gerald, lygnir aftur augunum og brosir við minninguna. Jóhanna bætir við: "Það er alveg rétt, við áttum lítið, en við áttum hvort annað og þetta voru yndislegir tímar."

Hjónin segjast nú horfa fram á veginn og ætla ekki að dvelja við undanfarin fjögur ár. Jóhanna segir: "Við setjum það á oddinn núna, að halda áfram að hugsa vel hvort um annað - halda áfram að láta okkur líða vel. Við höfum allt sem við þurfum og höfum margt til að þakka fyrir. Það er með ólíkindum hversu mikinn stuðning við höfum fengið undanfarin fjögur ár, stuðning frá fjölskyldu, vinum og kunningjum, en einnig stuðning frá bláókunnugu fólki." Jón Gerald tekur undir með konu sinni og segir: "Þegar þetta var allt að byrja fyrir fjórum árum, þá fékk ég símtöl frá ólíklegasta fólki, sem ég þekkti ekki neitt. Fólk hringdi í mig úr öllum landshornum til þess að sýna mér stuðning og hvetja mig áfram: útgerðarmaður af Vestfjörðum, bóndi austan úr sveitum, og svo framvegis. Ég undraðist auðvitað þennan mikla stuðning og skildi ekkert í því hvernig fólk hafði grafið upp símanúmer mitt, en ég er öllu þessu fólki afar þakklátur og ég þakka líka fyrir það hvað við höfum kynnst frábæru fólki þessi fjögur ár, fólki sem verða vinir okkar svo lengi sem við lifum."


2. hluti viðtalsins var svo birtur í Morgunblaðinu 26. júní 2006:

Jón Gerald Sullenberger, upphafsmaður Baugsmálsins, heldur hér áfram í viðtali við Agnesi Bragadóttur að lýsa reynslu sinni og fjölskyldu sinnar undanfarin fjögur ár. Í þessum síðari hluta viðtalsins greinir Jón Gerald m.a. frá málaferlum Baugs á hendur honum í Bandaríkjunum, lyktum þeirra og Vífilfellshátíðarhöldum Baugsmanna um borð í Thee Viking.

Við Jón Gerald tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið og hverfum nú til Miami á Flórída.

Haustið 2002 lagði Jón Gerald Sullenberger fram tvær kærur til Ríkislögreglustjóra á hendur Baugi, og í framhaldi af því fóru tveir rannsóknarlögreglumenn til Miami á Flórída til að yfirfara öll gögn og yfirheyra starfsfólk Nordica, fyrirtækis Jóns Geralds í Bandaríkjunum.

"Það var þá sem lögreglan fékk í hendur pappírana um bílainnflutning Bónusfjölskyldunnar. Ég var yfirheyrður um þessa pappíra og greindi að sjálfsögðu satt og rétt frá. Það var svo í framhaldi af því, að þau voru ákærð fyrir að falsa tollapappíra."


Davíð og Golíat

Óneitanlega kemur upp í hugann barátta Davíðs og Golíats, þegar skoðuð eru málsskjöl og hlustað er á frásögn Jóns Geralds af þeim málaferlum sem Baugur hóf á hendur honum í Bandaríkjunum, niðurstöðu þeirra og þeim samningum sem að lokum tókust á milli Jóns Geralds og Baugs.

Það var síðla árs 2002 sem Jón Gerald fékk vitneskju um að Jón Ásgeir Jóhannesson, Kristín Jóhannesdóttir og faðir þeirra, Jóhannes Jónsson, ætluðu að höfða mál á hendur honum og Nordica á Miami, þar sem þau ætluðu að krefjast þess að þau fengju sér dæmdan eignarhlut í bátnum Thee Viking. Í málshöfðuninni var því haldið fram að Jón Gerald hafi fengið lán frá Gaumi til þess að styrkja rekstur Nordica, en hann hafi notað lánið til þess að kaupa sér bát.

Jafnframt fóru þau fram á að Jón Gerald afhenti þeim öll þau gögn, sem hann hafði lagt fram hjá Ríkislögreglustjóra, vegna ákærunnar á Íslandi.


Voru margsaga

"Ástæða þessarar kröfu var auðvitað sú, að þau voru búin að taka svo mikið til hjá sér og eyða svo miklu af gögnum, að þau vissu aldrei á hverju væri næst von í yfirheyrslunum hjá Ríkislögreglustjóra, enda voru þau margsaga, eins og kemur ítrekað fram í rannsóknargögnunum," segir Jón Gerald, "því eins og alkunna er, þá er svo miklu erfiðara að ljúga en segja sannleikann. Fólki hættir til að gleyma hverju var logið síðast!

Í þessum yfirheyrslum á Miami í janúarbyrjun 2003 staðfestir Jóhannes, að hann hafi lesið þessa ákæru á hendur mér og kvittað undir hana.

Jóhannes mætti fyrir hönd þeirra þriggja í dómsal á Miami, með sínum fylgisveinum og Helga Jóhannessyni lögmanni og svo einhverjum túlk. Síðan kemur það í ljós í réttarhöldunum að Jóhannes hafði aldrei lesið ákæruna, heldur hafði Kristín dóttir hans lesið ákæruna. Jóhannes hafði hins vegar skrifað undir ákæruna, af því að Kristín hafði sagt honum að gera það.

Mér finnst það kannski lýsa hugsunarhætti barna Jóhannesar, að þau skulu hafa ákveðið að senda pabba sinn aleinan hingað niður eftir í réttarhöldin.

Þegar dómarinn áttaði sig á því, að Jóhannes hefði staðfest og skrifað undir ákæru, án þess að hafa hugmynd um efni hennar, þá var málinu einfaldlega vísað frá. Þetta var afar niðurlægjandi fyrir Jóhannes."


Tilraun til fjárkúgunar

Jón Gerald segir að Baugsmenn hafi ekki gefist upp við svo búið, heldur hafi þeir höfðað nýtt mál á hendur honum og auk þess hafi Baugur höfðað annað mál á hendur Nordica vegna kreditreikningsins, og krafist þess að Nordica greiddi þeim "þennan tilhæfulausa reikning".

"Þann gjörning þeirra tel ég hafa verið mjög alvarlega tilraun til fjárkúgunar af hálfu Baugsmanna," segir Jón Gerald. "Það kom líka á daginn, að það voru aldrei nein gögn til, sem studdu þessa fáránlegu kröfu þeirra. Það sama má segja um þetta svokallaða lán frá Gaumi. Staðreyndin er sú að allar greiðslur fyrir Thee Viking frá 1999 til 2002 komu frá Baugi. Ég fékk aldrei neinar greiðslur frá Gaumi, hvað þá lán.

En nú skyldi tjaldað því sem til var. Það var kvaddur til heill her lögmanna, bandarískra og íslenskra, því nú átti að ganga frá mér og mínu fyrirtæki, samkvæmt dagskipan Jóns Ásgeirs, hvað svo sem það kostaði. Þeir réðu sér meira að segja einkaspæjara hér á Flórída, til þess að elta mig og mína fjölskyldu og reyna að grafa upp einhvern skít um mig, en þeim varð ekki að þeirri ósk sinni. Þetta veit ég. Ég meira að segja hitti einkaspæjarann."

Í apríl 2003 eru svo réttarhöld á Miami á nýjan leik, sem stóðu í tvo daga. Jón Gerald segir að þar hafi Jón Ásgeir mætt ásamt Ingibjörgu Pálmadóttur og Jóhannes hafi mætt með Guðrúnu Þórsdóttur, sambýliskonu sinni og heill hópur lögmanna hafi verið með þeim.

"Ég get ekki stillt mig um að segja frá því, að í þessum réttarhöldum var Ingibjörgu Pálmadóttur vísað úr réttarsal," segir Jón Gerald og hlær við. "Lögmaður minn ætlaði nefnilega að kalla Ingibjörgu í vitnastúkuna, því hún hafði farið með Jóni Ásgeiri og Brian skipstjóra Thee Viking á bátnum til Sunseeker, bátamiðlara, til að skoða stærri bát. Þá var Jón Ásgeir að hugsa um að kaupa stærri bát og setja Thee Viking upp í. Bátamiðlarinn hringdi í mig og spurði hvað væri eiginlega í gangi, því til hans hefði komið ungt par frá Íslandi, sem væri að hugleiða að setja bátinn minn upp í annan stærri bát. Það héldu allir að ég ætti bátinn einn, svo viðkvæmt mál var eignarhaldið á bátnum fyrir feðgana. Ég ætlaði því að kalla Ingibjörgu til vitnis um þessa ferð, þar sem fram hefði komið að Jón Ásgeir hefði verið að kanna með sölu á bát, sem hann segist aldrei hafa átt nokkurn hlut í!" Og enn hlær Jón Gerald, því augljóslega finnst honum atburðarásin svo fáránleg, að það sé ekki um neitt að ræða annað en hlæja að þessari upprifjun, hversu sorglegt sem það svo er.

Jón Gerald segir að niðurstaða þessara tveggja daga réttarhalda hafi verið sú, að Bónusfeðgar gátu ekki lagt fram neinar haldbærar skýringar eða gögn, sem studdu kröfur þeirra í málaferlunum á hendur honum í Bandaríkjunum. Ákveðið hafi verið að halda réttarhöldunum áfram í júní 2003. Dagsetningum hafi ítrekað verið breytt, vegna þess að Baugsmenn hafi aldrei mátt vera að því að koma til Flórída til þess að vera viðstaddir réttarhöldin, sem þeir höfðu jú sjálfir stofnað til.

"Þegar ég svo frétti, að Jón Ásgeir og félagar væru á Formúlunni í Mónakó í júní, sömu menn og höfðu, vegna anna, fengið réttarhöldunum sem þeir hófu gegn mér, ítrekað frestað, sagði ég hingað og ekki lengra og ákvað að veita þeim ekki frekari frest. Ákveðið var að réttarhöldin færu fram 25. og 26. júní 2003. Að sjálfsögðu mættu feðgarnir ekki, en fyrir þeirra hönd mætti her lögmanna eina ferðina enn og efnisleg niðurstaða þessara réttarhalda var vægast sagt vandræðaleg fyrir þau Jón Ásgeir, Kristínu og Jóhannes."


Vífilfellshátíðarhöldin

-Hvað áttu við með vandræðaleg?

"Lögmaður þeirra mætti í réttarhaldið með reikning upp á 19 þúsund dollara, krafði mig skýringa á þessum reikningi og hafði greinilega ekki hugmynd um hvaða saga var á bak við þennan reikning. Reikning sem ég vil segja að hafi orðið Baugi að falli."

Í málsskjölum kemur fram að Jón Gerald spurði lögmanninn við vitnaleiðsluna hvort hún vildi í raun og veru að hann skýrði þennan reikning út fyrir dóminum og hún kvað já við og þá rakti Jón Gerald sögu reikningsins.

Svo vitnisburður Jóns Geralds úr réttarhöldunum frá því í júní 2003 sé endursagður í stuttu máli, þá er hann efnislega svona: Í nóvember 2001 ákváðu Baugsmenn að mæta til Flórída, til þess að halda upp á kaupin á Vífilfelli og Jón Ásgeir lét Jón Gerald vita að þeir þyrftu á bátnum að halda. Jón Gerald sagði Jóni Ásgeiri að hann yrði í London þegar þeir kæmu til Miami, en báturinn yrði til taks.

Hann segir að þegar hann hafi komið til baka til Miami frá London hafi báturinn nánast verið í rúst og hann hafi þurft að fá starfsfólk til þess að þrífa og gera við það sem búið var að skemma.


Óttaðist um líf okkar

"Svo fæ ég símtal, og á hinum endanum er óður maður, sem segist reka fylgdarþjónustu í Fort Lauderdale, sem hefur í slíkum hótunum við mig, að mér stóð alls ekki á sama og óttaðist bókstaflega um líf mitt og fjölskyldu minnar. Ég áttaði mig alls ekkert á hvað var um að vera, en þegar mér tekst að róa manninn aðeins, þá skil ég, að hann heldur að hann hafi átt í ákveðnum viðskiptum við mig, þar sem ég var skráður fyrir bátnum, en það var auðvitað Jón Ásgeir sem hafði átt í viðskiptum við hann.

Jón Ásgeir hafði sem sé keypt þjónustu fyrirtækis þessa manns fyrir 19 þúsund dollara, til þess að skemmta liðinu um borð í bátnum, sem var að halda upp á kaupin á Vífilfelli. Jón Ásgeir hafði greitt manninum með kreditkorti Baugs og straujað kortið margsinnis því hver nóta var upp á 2.500 dollara. Maðurinn hafði svo fengið þær upplýsingar í bankanum, þegar hann ætlaði að leysa út 19 þúsund dollarana sína, að búið væri að loka þessu kreditkorti, því hefði verið stolið.

Þegar ég er búinn að átta mig á samhenginu, segi ég manninum að ég sé ekki sá sem hann sé að leita að. Ég hafi ekki verið um borð í bátnum, en ég segist ætla að kynna mér málið þegar í stað og ég bað hann um að senda mér allar þær upplýsingar sem hann hefði, sem hann gerði.

Ég reyndi strax að ná í Jón Ásgeir, en án árangurs. Þá hringi ég í Tryggva, sem biðst þegar í stað afsökunar á þessu og segir mér að senda sér reikning í hvelli, alveg eins og hina reikningana. Ég bjó til 19 þúsund dollara reikning og faxaði hann í snarhasti til Tryggva. Morguninn eftir fékk ég tölvupóst frá Jóni Ásgeiri, þar sem hann biðst afsökunar á því sem hafi gerst. Sagðist vera búinn að hafa samband við bankann í Lúxemborg og þeir væru búnir að leysa málið, þ.e. senda manninum peningana. Þegar málið hafði verið leyst, þá tók ég þennan 19 þúsund dollara reikning, reif hann og henti.

Svo er það lögfræðingur þeirra Jóns Ásgeirs, Kristínar og Jóhannesar sem mætir með reikninginn á faxinu, sem ég hafði sent til Tryggva, að hans beiðni, og krefur mig skýringa á reikningnum í réttarhöldunum! Er þetta ekki stórkostlegt?! Hún krafðist skýringanna og ég veitti þær!"


Vildu semja

Jón Gerald segir að grafarþögn hafi ríkt í réttarsalnum, þegar hann hafði lokið máli sínu. Hann og lögfræðingur hans hafi í framhaldinu ákveðið að stefna öllum þeim sem tekið höfðu þátt í Vífilfellshátíðarhöldunum, til þess að upplýst yrði fyrir réttinum, hvað hefði gengið á í þessari ferð.

"Í framhaldi af þessum réttarhöldum gerðist það heima á Íslandi, að Baugsmenn höfðu samband við Jón Steinar lögmann minn og óskuðu eftir að ganga til samninga við mig. Þeir óskuðu eftir því að ganga frá málum gagnvart Nordica, greiða það sem þeir skulduðu mér, sem samkvæmt minni málshöfðun heima á Íslandi var, að þeir gengju frá ógreiddum gámasendingum og að þeir bættu mér vanefndir á viðskiptasamningum. Einnig krafðist ég þess að þeir greiddu mér þann lögfræðikostnað, sem ég hafði orðið fyrir, vegna ofsókna þeirra á hendur mér hér í Bandaríkjunum. Þeir samþykktu þetta allt og gengu frá öllum málum, féllu frá málsókn hér í Bandaríkjunum, greiddu mér allar mínar kröfur á Íslandi og ég féll frá málsókn á Íslandi.

Einu kröfurnar sem Baugsmenn gerðu til mín voru að ég gerði við þá einhliða samkomulag, um að ég myndi ekki ræða opinberlega heima á Íslandi efnislegt innihald samninga okkar. Ég sagði við þá að það kæmi ekki til greina að slíkt samkomulag yrði gert, nema það væri gagnkvæmt.

Ég lýsti því jafnframt yfir, að ég myndi halda áfram að segja satt og rétt frá, í öllu sem tengdist lögreglurannsókninni á Baugi. Þessu lýsti ég yfir að gefnu tilefni, því þeir settu fram óskir um að ég myndi ekki ræða frekar við embætti Ríkislögreglustjóra um Baugsmál. Þessi varð niðurstaðan, en það ótrúlega er, að það voru þeir sjálfir, Baugsmenn, sem brutu samkomulag okkar um að ræða ekki Baugsmálið í fjölmiðlum. Einu mennirnir sem tjáðu sig um þetta mál opinberlega, í fjölmiðlum, bæði á Íslandi og í Bretlandi og fóru offari í málinu, voru þeir sjálfir, enginn annar. Ég er því óbundinn af öllum samningum við þá."

Í því sambandi vísar Jón Gerald til bréfs sem lögmaður hans á Miami, Jonathan Goodman, sendi lögmanni Bónusfjölskyldunnar í Bandaríkjunum, Judith Sullivan, sem svar við bréfi hennar, þar sem hún hélt því fram að Jón Gerald hefði brotið samkomulag um trúnað sem gert var á milli hans og Baugs, þegar hann kom fram í sjónvarpi 1. júlí 2005. Meðal annars segir Goodman í bréfi sínu: "Mig grunar að skjólstæðingar þínir hafi ekki veitt þér tæmandi upplýsingar. Því ef svo væri, væri bréf þitt óútskýranlegt ...

Rétt er það, að Sullenberger kom fram í sjónvarpsviðtali 1. júlí 2005. Í því viðtali fór hann hvorki niðrandi orðum um skjólstæðinga þína, né veitti hann nokkrar þær upplýsingar sem skoðast gætu sem samningsbrot.

Það sem skiptir meira máli í þessu samhengi, er að skjólstæðingur þinn hafði áður brotið samkomulagið í tvennum skilningi, bæði hvað varðar trúnaðarupplýsingar og niðrandi orðalag, með því að senda þrjú bréf frá Baugi til íslenskra fjölmiðla hinn 1. júlí 2005, í kringum kl. 12.50, eða um það bil sjö klukkustundum áður en Sullenberger kom fram í sjónvarpsviðtali."

Í bréfi Goodman kemur fram að hann telur að með því að hafa gert þessi þrjú bréf opinber fyrir tæpu ári, hafi Baugur brotið það samkomulag sem málsaðilar höfðu gert með sér. Niðurlag bréfs hans í lauslegri þýðingu er svohljóðandi: "Þótt Sullenberger hafi á engan hátt brotið skilmála samkomulagsins þegar hann kom fram í sjónvarpsviðtali síðar þennan dag, er bréf þitt kaldhæðnislegt, svo ekki sé meira sagt.

Ég treysti því að bréf þitt frá 13. júlí 2005 verði síðasta erindið sem ég fæ í hendur frá þér, hvað varðar ásakanir um samningsrof Sullenberger. Í stað þess að skella fram órökstuddum ásökunum um Sullenberger, kynni að vera ráðlegt fyrir þig, að eiga hreinskiptnar samræður við eigin skjólstæðinga, um hátterni starfsmanns almannatengsladeildar Baugs, þegar ofangreind bréf voru send til fjölmiðla."

Jón Gerald heldur áfram: "Satt best að segja tel ég að best væri úr þessu, að íslenska þjóðin gæti einfaldlega farið inn á mbl.is og lesið öll rannsóknargögn Ríkislögreglustjóra í málinu, þar á meðal yfirheyrslurnar yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Tryggva Jónssyni og Hreini Loftssyni. Þannig gæti þjóðin sjálf gert upp hug sinn og vegið og metið hver er að segja satt. Raunar, miðað við þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið, í öllum þessum málatilbúnaði, þá mætti líka spyrja, hvort ekki væri rétt að gera aðra Gallup-skoðanakönnun meðal þjóðarinnar, eftir að hún hefði fengið að kynna sér öll gögn málsins."


Tók bátinn lögtaki

Jón Gerald segir að á sama tíma og Baugur hafi verið í málaferlum gegn honum í Bandaríkjunum hafi hann átt fund með fulltrúa viðskiptabanka síns á Miami, sem hann hafði átt í viðskiptum við í 16 ár. Hann hafi lýst fyrir fulltrúanum hvað væri að gerast. Hann væri að slíta viðskiptum við Baug og hann hefði höfðað mál á hendur Baugi heima á Íslandi. Því ætlaði hann að setja bátinn, Thee Viking, í sölu, borga feðgunum þeirra hlut og gera upp við bankann. Hann hafði tekið lán út á hús fjölskyldunnar, til þess að standa í skilum með afborganir af bátnum.

"Þá gerist það allt í einu, að bankinn endursendir mér þær greiðslur sem ég hafði greitt vegna afborgana af bátnum og tók bátinn lögtaki. Mér var mjög brugðið, því ég hafði rætt við bankann um hvernig við lykjum þessu máli. En þá kom í ljós að Baugur hafði sent hótunarbréf til bankans míns, þess efnis að þeir væru að höfða mál á hendur New Viking (félagið sem Jón Gerald stofnaði um rekstur Thee Viking - innskot blaðamanns) og Nordica, vegna þess að þeir hefðu lánað mér peninga sem ég hefði notað til að kaupa bátinn. Þeir sögðu að ég skuldaði þeim þessa peninga og þar af leiðandi ættu þeir kröfu í bátinn. Þetta var skýringin á aðgerðum bankans, því hann vildi verja sinn hlut vegna lánsins og hafði fyrsta veðrétt í bátnum.

Ekki nóg með að ég hefði höfðað tvö mál á hendur Baugi heima á Íslandi, heldur höfðu þeir höfðað þrjú mál á hendur mér hér í Bandaríkjunum og nú var ég líka kominn í málaferli við bankann minn. Ég var einn að reyna að berjast við þetta ofurveldi Baugs, sem hafði að minnsta kosti fimm lögmannsstofur á sínum snærum, eina á Íslandi og fjórar í Bandaríkjunum og ótakmarkaða fjármuni, í vinnu við að reyna að ganga frá mér og öllu því sem ég hafði byggt upp á sextán árum.

Með þessu tókst Baugsmönnum að eyðileggja 16 ára viðskiptasamband mitt við bankann. Ég fór í mál við bankann, eftir að hann hafði tekið bátinn lögtaki og það var við skýrslutökur vegna málshöfðunar minnar, sem hið sanna kom í ljós um tilhæfulausa kröfugerð Baugs á hendur bankanum.

Eftir skýrslugerðina var sá yfirmaður bankans, sem hafði með ólögmætum hætti tekið bátinn lögtaki, rekinn, bankinn leitaði eftir samningum við mig og bakkaði þar með út úr þessum gjörningi, afhenti mér bátinn á nýjan leik og greiddi allan þann kostnað sem ég hafði haft vegna lögtaksins. Á þeim vettvangi vann ég því einnig sigur á þeim Baugsmönnum."


Myndi gera það sama aftur

-Jón Gerald. Nú eru liðin rétt fjögur ár frá því að öll ósköpin hófust. Hvaða áhrif hafa þessi átök haft á þig og fjölskyldu þína og hefðir þú fyrir fjórum árum farið af stað með málið, ef þú hefðir vitað allt þá sem þú veist í dag?

"Svo ég svari seinni hluta spurningarinnar fyrst, þá er svarið já, alveg tvímælalaust. Auðvitað gerði ég mér ekki hina minnstu grein fyrir því, þegar ég tók ákvörðun um að ákæra, hvers konar stórmál Baugsmálið ætti eftir að verða. Ég var ósköp einfaldlega maður í rekstri hér í Bandaríkjunum sem hafði verið svikinn í viðskiptum. Ég var að leita réttar míns og réttlætis, sem ég hafði reynt að gera gagnvart Baugi árum saman, án árangurs. Ég var búinn að gefast upp á að reyna að fara samningaleiðina og því var dómstólaleiðin eina leiðin sem var fær fyrir mig. Þessi litli snjóbolti sem ég velti einn af stað í júní 2002, varð vissulega að snjóflóði, sem mig hefði aldrei órað fyrir í upphafi að yrði, en þeir Baugsmenn geta við engan sakast nema sjálfa sig.

Það hefur líka verið ótrúlegt að horfa upp á hvernig Baugsmenn hafa lagt embætti ríkissaksóknara í einelti og þær persónulegu ákúrur, sem það heiðarlega fólk hefur mátt sæta, eru með ólíkindum.

Þau fjögur ár sem rannsóknin hefur staðið hef ég ekki annað séð, en starfsmenn hafi unnið faglega í einu og öllu. Eins og ég hef áður sagt, þá var þetta ekki pólitískt mál, en það kann að hafa breyst þegar Baugsmenn ætluðu að bjóða forsætisráðherra hundruð milljóna fyrir að láta þá í friði, þó þeir vilji halda því fram að það hafi aðeins verið gert í gríni. Eins og við vitum, þá fylgir öllu gamni nokkur alvara.

Það hefur, þrátt fyrir allt, verið gott að sjá nokkra sterka stjórnmálamenn og leiðtoga þjóðarinnar sem ekki eru til sölu.

Þeir sem hafa ekki verið til friðs í augum Bónusfeðga og Tryggva Jónssonar hafa verið lagðir í einelti í flestum fjölmiðlum Baugs. Ýmsir leigupennar Baugsmanna eins og Hallgrímur Helgason, Ólafur Hannibalsson, Jón Kaldal, Kári Jónasson, Sigurjón M. Egilsson sem og Jakob Frímann Magnússon, útvarpsfólkið Ingvi Hrafn Jónsson og Arnþrúður Karlsdóttir hafa stundað stöðugar árásir á alla þá sem vilja einfaldlega eðlilega málsmeðferð. Yfirlýsingarnar og persónuárásirnar hafa stundum verið þess eðlis, að um hrein mannréttindabrot er að ræða. Ég hef aldrei hitt þetta fólk og þekki það ekki, en samt er það með skoðanir á mér og galar út í þjóðfélagið fyrir hönd Baugsmanna það sem hentar þeim. Þetta aumingja fólk er ekki enn búið að átta sig á því, að það er verið að nota það.

Þessi heilaþvottur hefur hljómað í ýmsum fjölmiðlum sem Baugsmenn eiga beint og óbeint. Þeir hafa eytt hundruðum milljóna í að réttlæta sviksemi sína.

Ég vona að dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, sem að ég þekki ekkert og hef aldrei talað við, sjái í gegnum skrumið hjá Baugsmönnum, þar sem þeir hafa ráðist á hann og reynt að ná sér niður á honum. Hann hefur verið dreginn inn í ótrúlega skrípamynd sem er augljóslega í anda Baugsfeðga; hatursfullar yfirlýsingar um fólk sem er þeim ekki að skapi. Hann er bara að vinna vinnuna sína, þetta þarf að stoppa,. Það átti meira að segja fella forsætisráðherra Íslands úr sæti. Það er engin hemja hvað átti að fara langt í þessu máli.

Dómstólar geta einir í dag komið á eðlilegu viðskiptaumhverfi með því að opinbera aðferðirnar sem Baugsveldið notar í viðskiptum sínum.

Þjóðin má ekki knékrjúpa bara vegna lágs verðlags í Bónus. Baugsmenn virðast telja að þeir séu yfir lög og reglu hafnir og geti leyft sér hvað sem er. Það er einfaldlega rangt og slíkt hátterni verður að stöðva.

Ég trúi því að ég hafi gert rétt, með því að leggja fram kæru. Ég er fullkomlega sannfærður um það og sé alls ekki eftir því að hafa farið af stað með málið. Ég tel einfaldlega, að mér hafi borið skylda til þess að sýna fram á hvernig þessir menn leyfa sér að koma fram, hversu ófyrirleitnir þeir eru, samviskulausir, vil ég segja og auðvitað varð ég að leita réttar míns, mér og fjölskyldu minni til hagsbóta.

Á margan hátt má segja að líf okkar hafi staðið í stað, þennan tíma, verið sett á "hold", því megnið af okkar tíma og orku hefur farið í þessa baráttu. En við erum reynslunni ríkari. Auðvitað hefur þetta verið mikil eldskírn fyrir mig og mína fjölskyldu. Sérstaklega fyrir okkur Jóhönnu. Við höfum reynt eftir megni að halda drengjunum fyrir utan öll þessi leiðindi og það hefur bara gengið ágætlega. En þessi mikla raun hefur raunverulega styrkt hjónaband okkar Jóhönnu enn frekar, við höfum staðið saman í gegnum þykkt og þunnt og orðið enn meiri vinir og félagar fyrir bragðið. Ég iðrast einskis og held ótrauður áfram."


Thee Viking

Mikill styr stóð um bátinn Thee Viking í átökum Jóns Geralds Sullenbergers við þá feðga Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson.

Báturinn var þriðji og stærsti báturinn sem Jón Gerald rak frá því að samstarf hans við Bónusfeðga hófst. Þeir hafa jafnan haldið því fram að þeir ættu ekkert í bátnum, en Jón Gerald hefur jafnan sagt að hann ætti bátinn í félagi við þá feðga.

Í málaferlunum á Miami, sem Baugur hóf á hendur Jóni Gerald snemma árs 2003, var þess krafist af Jóni Ásgeiri, Kristínu systur hans og föður þeirra Jóhannesi að þau fengju sér dæmdan eignarhlut í bátnum Thee Viking og því haldið fram að Jón Gerald hefði fengið lán frá Gaumi til þess að styrkja rekstur Nordica, en hann hefði notað lánið til þess að kaupa sér bát.

"Staðreyndin er sú að allar greiðslur fyrir Thee Viking frá 1999 til 2002 komu frá Baugi. Ég fékk aldrei neinar greiðslur frá Gaumi, hvað þá lán... Það héldu allir að ég ætti bátinn einn, svo viðkvæmt var eignarhaldið á honum fyrir feðgana. Ég ætlaði því að kalla Ingibjörgu til vitnis um þessa ferð, þar sem fram hefði komið að Jón Ásgeir hefði verið að kanna með sölu á bát, sem hann segist aldrei hafa átt nokkurn hlut í!" segir Jón Gerald.



Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.