Lokaorð
Kæru Íslendingar,Hér á þessari síðu hef ég reynt að draga saman þær spurningar sem vakna hjá mér þegar ég les gögnin og framburðina sem liggja fyrir í þessu svokallaða Baugsmáli.
Ég trúi á hlutleysi dómstóla og að allir menn eigi að vera jafnir frammi fyrir lögum.
En ég trúi því ekki að venjulegir borgarar hefðu fengið þessa meðferð fyrir dómstólum landsins eins og Baugsmenn hafa fengið.
Miðað við þau gögn og þá framburði sem liggja fyrir hjá tugum einstaklinga og svo þá einföldu staðreynd hversu margsaga og þversagnakenndir framburðir Baugsmanna eru (sjá kaflann "Framburðir Baugsmanna") að ekki sé talað um peningaslóðina sem liggur hvarvetna að og frá sakborningum, er með öllu óskiljanlegt hvernig rúmlega 50 ákærum er einfaldlega vísað frá eða sýknað í.
Ég trúi ekki að lög á íslandi séu þess eðlis að þessir viðskiptahættir sem hér er lýst nái ekki yfir þá.
Ef svo er, eru lögin meingölluð svo ekki sé meira sagt.
Mér er sagt að í öllum löndum sem við berum okkur helst við, hefði verið sakfellt fyrir þessi atriði hjá dómstólum.
Ég bendi sérstaklega á kaflann hér á síðunni þar sem saksóknari efnahagsbrotadeildarinnar í Noregi gagnrýnir niðurstöður dómstóla hér á íslandi.
Sú spurning vaknar hvort dómstólar landsins ráði einfaldlega ekki við mál af þessari stærðargráðu?
Conrad Black, fjölmiðlamógull fékk 6 ára fangelsi hér í Bandaríkjunum fyrir að misnota almenningshlutafélag sem hann stýrði og var heildarupphæðin um 6 milljón dollarar sem er talsvert minna en Baugsmenn tóku til sín án vitundar stjórnar félagsins.
Baugsmálið er nefnilega þegar upp er staðið afskaplega einfalt mál.
Lögbundið ákvörðunarvald stjórnarmanna og stjórnarformanns sem lögum skv. taka allar meiriháttar ákvarðanir fyrir almenningshlutafélög er einfaldlega ekki virt.
Hvernig ætli breskir dómstólar myndu taka á máli ef forstjóri TESCO, sem er stærsta smásölufyrirtæki Bretlands, myndi millifæra hundruðir milljóna úr sjóðum fyrirtækisins til sín og fjölskyldu sinnar og einkahlutafélögum í sinni eigu , án lánapappíra, vaxta eða afborgana og án vitundar stjórnarmanna og stjórnarformanns TESCO?
Hvernig ætli danskir dómstólar myndu taka á máli ef forstjóri Dansk Supermarked, sem er eitt stærsta smásölufyrirtæki Danmerkur, myndi millifæra hundruðir milljóna króna úr sjóðum fyrirtækisins til sín og fjölskyldu sinnar og einkahlutafélögum í sinni eigu , án lánapappíra, vaxta eða afborgana og án vitundar stjórnarmanna og stjórnarformanns Dansk Supermarked?
Baugur var almenningshlutafélag í eigu þúsunda íslendinga og lífeyrissjóða.
Baugur var ekki einkabanki forstjórans Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu hans.
Jón Ásgeir, faðir hans, systir og félag þeirra Gaumur ehf. fengu hundruðir milljónir króna að "láni" frá almenningshlutafélaginu Baug sem þau nýttu sér til ýmissa fjárfestinga sem síðan voru seld tilbaka til almenningshlutafélagsins Baugs hf. með gríðarlegum hagnaði sem rann allur í vasa Gaums ehf. (sjá kaflann um Fjárfar) og svo einnig til hlutabréfakaupa.
Öll þessi lán voru án lánspappíra, vaxtalaus og litlar sem engar afborganir greiddar (þó var nokkuð greitt tilbaka eftir innrás lögreglunnar í ágúst 2002).
Leynifélagið Fjárfar ehf. fékk einnig hundruði milljóna króna að láni frá almenningshlutafélaginu Baug hf. án trygginga, vaxta eða afborgunarskilmála og keypti gríðarlegt magn af hlutabréfum í Baug hf.
Færa má sterk rök fyrir því að aðrir hluthafar Baugs myndu fagna slíkum lánakjörum til að fjárfesta í hlutabréfum í almenningshlutafélaginu Baug hf.
Þegar nógu miklu magni af hlutabréfum í Baug hf. var svo náð, var félagið keypt með engu yfirverði eins og venja er þegar stjórnendur og helstu eigendur eiga í hlut þar sem þeir hafa jú allar upplýsingar um félagið, og tekið af markaði og er núna í einkaeigu Jóns Ásgeirs, fjölskyldu hans og félaga.
Síðan þá hefur Baugur verið á stanslausri sigurgöngu og á 4 árum orðið eitt stærsta smásölufyrirtæki Norðurlanda og kominn á lista yfir stærstu smásölufyrirtæki Evrópu.
Enginn spyr spurninga miðað við framlögð gögn og framburði hvernig þessir dómstólar geti komist að þessum niðurstöðum að þetta séu allt saman bara eðlileg viðskipti en ekki lögbrot sbr. úrskurð héraðsdóms í Fjárfars málinu.
Baugsmiðlar eins og kemur fram í kaflanum um ritskoðun Baugsmiðla eru allir rækilega "kafnaðir í kærleika Baugs" svo vitnað sé til orða núverandi ritstjóra DV, Reynis Traustasonar (Sjá samnefndan kafla).
Fréttastjórar og ritstjórar eru sérvaldir til áhrifa á Baugsmiðlum og viðskiptafréttunum ritstýrir hinn ágæti fyrrum aðstoðarmaður Jóns Ásgeirs og nýjasta viðbótin í viðskiptafréttunum er fyrrum borgarfulltrúi sem varði samning við FL Group fram í rauðann dauðann í REI málinu og missti vinnuna eins og frægt er orðið. Þessi ágæti drengur er nú einn æðsti yfirmaður allra viðskiptaskrifa Baugsmiðlanna.
Ef ekki væri fyrir 24 stundir t.d. hefði framburðir og vitnaskýrslur úr Baugsmálinu aldrei verið opinberaðar en blaðið birti 3 daga í röð framburði ýmissa áhrifamanna í samfélaginu sem allir segjast hafa verið blekktir og sviknir og nöfn þeirra m.a. misnotuð árum saman af Baugsmönnum á allskyns skjölum (15., 16. og 17.maí sl.)
Einnig stóð Kastljós sig með prýði þegar það birti gögn úr málinu á sínum tíma.
Morgunblaðið hefur þagað frá því viðtölin við mig birtust á sínum tíma.
ALLIR Baugsmiðlar fengu verulegt magn af gögnum frá mér í janúar sl.
Enginn sá ástæðu til að biðja um frekari gögn eða birta eitthvað af gögnunum.
Hvernig ætli Baugsmiðlar hefðu brugðist við ef þessi réttarhöld beindust gegn öðrum en eigendum þeirra, þ.e. Baugsmönnum ?
Hvernig ætli DV eða Séð og Heyrt myndu bregðast við fréttum að endalausu sukki, gleðikonum og veisluhöldum áhrifamestu viðskiptajöfra landsins ef það væru ekki eigendur þeirra sem þar ættu í hlut ?
Ég fullyrði að ALLIR Baugsmiðlar hefðu þá birt þessi gögn enda framburðirnir verulega fréttnæmir, t.d. bankastjóra íslandsbanka um blekkingar, framburður endurskoðenda fjárfars ehf. um "blekkingarferlið" og t.d. framburður Árna Samúelssonar um hvernig nafn hans var misnotað á skjölum varðandi 450 milljón króna láns frá íslandsbanka og svona mætti lengi telja.
Því spyr ég, hvað segja t.d. eftirfarandi aðilar:
Alþingi ?
Fjármálaeftirlitið ?
Samkeppniseftirlitið ?
Er ekki kominn tími á auðhringjalöggjöf á Íslandi ?
Er ekki kominn tími á fjölmiðlalög á Íslandi ?
Vilja menn virkilega hafa þetta veldi áfram sem þenst út á óhemju hraða og veltir í dag nokkrum íslenskum fjárlögum og eirir engu í að ná markmiðum sínum og virðir engar leikreglur ?
Treysta menn virkilega Baugsmiðlum að vera hlutlausir í fréttamennsku sinni sbr. þau örfáu dæmi sem hér eru nefnd á síðunni í kaflanum "ritskoðun Baugsmiðla" ?
Agnes Bragadóttir spyr í pistli sínum sem ég birti hér á síðunni hvort það geti verið að Ísland sé orðið eitt lítið hræðsluþjóðfélag.
Svarið við þeirri spurningu er jafn einfalt og það er dapurlegt.
Svarið er Já.
Virðingarfyllst,
Jón Gerald Sullenberger,
Höfundur er búsettur í Bandaríkjunum