Saksóknari efnahagsbrotadeildar Noregs gagnrýnir Hæstarétt
Laugardaginn 25. febrúar, 2006 birtist eftirfarandi grein í Morgunblaðinu frá saksóknara efnahagsbrotadeildar Noregs þar sem hann gagnrýnir niðurstöður dómstóla Íslands í Baugsmálinu.Um Baugsmál og starfshætti réttarríkisins
Eftir Morten Eriksen: "Ég geri þær athugasemdir við dóm Hæstaréttar að hann kallar á alveg nýja og aukna umfjöllun um lýsingar á atvikum þar sem fjalla þarf nánar um hvernig staðið var að verki..."
Morten Eriksen
1. Réttarríkið á tímum hnattvæðingar
Bæði hnattvæðing og aukin alþjóðaviðskipti hafa haft jákvæð áhrif, brotið niður múra á milli þjóða og stuðlað að aukinni velferð fjölmargra. Norrænu ríkin hafa öðrum fremur átt sitt undir þróuðum alþjóðlegum viðskiptum og byggt velferð sína á þeim.
Í kjölfar alþjóðavæðingar hafa komið til neikvæð áhrif. Brotastarfsemi hvers konar hefur fengið stöðugt alþjóðlegra einkenni. Einnig því hafa Norðurlöndin fengið að kynnast.
Allir þekkja þau alþjóðlegu stórfyrirtæki sem lent hafa í alvarlegum fjármálahneykslum á okkar dögum. Þar má sem dæmi nefna Enron, Tyco, Maxwell, Worldcom, BCCI, Elf, Parmalat og fleiri frá síðustu árum en þessi mál hafa haft bæði bein og óbein áhrif á líf okkar allra, ekki síst Enron-málið. Hið alþjóðlega endurskoðunarfyrirtæki Arthur Andersen þurrkaðist út af kortinu á einni nóttu en var þó með þeim stærstu í Noregi.
Sjaldgæfara er þó, sem betur fer, að góðir grannar okkar í vestri - á Íslandi - veki athygli vegna stórs fjármálamisferlis en Baugsmálið er umfangsmikið og vekur þar af leiðandi athygli víða um heim. Þeir sem ákærðir eru eiga umtalsverðan hluta af fjölmiðlum landsins, eru áhrifamiklir í viðskiptalífinu á Ísland og hafa sem slíkir væntanlega pólitísk áhrif.
Þegar málaferli eru í gangi gegn sakborningum með mikil áhrif gerist það ekki þegjandi og hljóðalaust. Margir hafa skoðanir á málinu, hvort sem þeir hafa áþreifanlega þekkingu á því eða ekki. Það á jafnt við um blaðamenn, fólk í atvinnulífinu, stjórnmálamenn, lögfræðinga og almenning. Sjálfstæði og hlutleysi fjölmiðla má ekki verða fyrir skakkaföllum þó upp komi grunur um refsiverða háttsemi eigenda þeirra en þetta er erfið staða og jafnvægisþraut sem blaðamönnum fréttamiðla tekst ekki alltaf jafnvel að leysa. Í því sambandi má benda á ægivald Silvios Berlusconis forsætisráðherra Ítalíu yfir ítölskum fjölmiðlum. Og að baki spinna vef sinn fjölmiðlaráðgjafar sem reyna að hafa áhrif alls staðar sem þeir ná til. Þannig er daglegt líf víða um heim.
Þrátt fyrir þetta má það ekki hafa nein áhrif á niðurstöður sakamála hvort hinir ákærðu hafi áhrif í stjórnmálum, fjölmiðlum eða atvinnulífi. Jafnt háir sem lágir eiga að njóta sama réttlætis og þar með talið að því er varðar refsingu.
Ástæðulaust er þó að vera með einhvern barnaskap. Í öllum samfélögum sjáum við að reynt er bæði að beita og misbeita völdum. Það fer eftir getu réttarríkisins til þess að sýna hlutleysi hvort það tekst eða ekki þegar sakamál eru tekin til meðferðar fyrir dómstólum.
Hinar ýmsu hliðar Baugsmála verða örugglega árum saman umfjöllunarefni, jafnt í fjölmiðlum sem á almennum og faglegum vettvangi. Það er styrkur lýðræðisins. Umræður, gagnrýni og sjálfsgagnrýni eru nauðsynlegar forsendur réttarríkisins og lýðræði í reynd.
En ferli Baugsmála stöðvaðist um sinn með dómi Hæstaréttar 10. október 2005, að því er virðist vegna réttarfarslegra smáatriða sem tengjast orðalagi í ákærunni. Ég ber mikla virðingu fyrir Hæstarétti Íslands sem hefur af mikilli samviskusemi metið þau atriði sem honum voru fengin til úrlausnar.
Það þarf þó engu að síður að fjalla um niðurstöðu hans. Verði eftir henni farið í öðrum ríkjum mun hún hafa umfangsmikil áhrif hvað meginreglur varðar, langt út yfir það sem Baugsmál snúast um, og gengur ótvírætt þvert á almennar kröfur um gerð ákæra á Norðurlöndum. Hvert ríki setur sér löggjöf en á mikilvægustu sviðum höfum við alltaf átt það margt sameiginlegt að samanburður getur verið gagnlegur, ekki síst vegna hinna mörgu alþjóðlegu tenginga.
Baugsmál eru engan veginn útkljáð enn og sjónarmið mín hér byggjast því eingöngu á þeim staðreyndum sem ákæran snýst um, eins og hún kemur fram í dómi Hæstaréttar í þeirri dönsku þýðingu sem ég hef undir höndum.
2. Baugsmál og frávísun Hæstaréttar
Ákæra er mikilvægt skjal. Almenningur hefur rétt á því að öðlast innsýn í málið og þess vegna er skjalið opinbert. Að mati prófessors Johs Andenæs, en hann er einn virtasti fræðimaður Norðurlanda á sviði refsiréttar, skal ákæra: 1) greina hver það er sem talinn er hafa haft hina refsiverðu háttsemi í frammi, 2) leggja fyrir dómstólinn til úrlausnar heimfærslu ætlaðra brota til refsiákvæða, og 3) veita ákærða nægar upplýsingar til þess að undirbúa málsvörn sína. Aðeins skal gerð grein fyrir meginatriðum. Um önnur atriði verknaðarins er fjallað við sönnunarfærsluna. Í fjölmörgum dómum Hæstaréttar Noregs hefur verið gerð nánari grein fyrir þeim kröfum sem gerðar eru til einstakra atriða ákæru.
Meðal ákærðra eru framkvæmdastjóri (aðalákærði), aðstoðarframkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Baugi hf. Ákæran er yfirgripsmikil en mínar athugasemdir tengjast nokkrum atriðum sem ég álít að séu aðalatriði hennar.
Stjórnendur nýttu sér aðstöðu sína m.a. til þess að láta félagið standa straum af útgjöldum, sem ekki vörðuðu rekstur félagsins, í formi afborgana lána, rekstrarkostnaðar og annarra tilfallandi útgjalda vegna skemmtibátsins "Thee Viking" sem einn ákærðu átti hluta í. Samtals var Baugur hf. látinn greiða 40 milljónir ísl. króna sem dreift var á 34 reikninga (sbr. ákærulið I 1).
Algengasta leiðin til fjárdráttar og eða umboðssvika í fyrirtækjum er að láta þau standa straum af útgjöldum, sem ekki varða rekstur þeirra og þetta gerist um heim allan. Lagaákvæði sem þetta varða eru því sem næst hin sömu á Íslandi, í Noregi og Danmörku. Við sambærilegar aðstæður í Noregi hefðum við einnig ákært fyrir skattsvik og brot á bókhaldslögum vegna þeirra áhrifa á skatta- og bókhaldsmál sem þessar greiðslur hefðu í för með sér fyrir bæði einstaklinga og fyrirtækið.
Hæstiréttur gerði margar athugasemdir við orðalag í ákærunni. Að mati hans kom ekki ótvírætt fram hver hinna ákærðu hefði átt að hagnast á greiðslum fyrirtækisins og hvernig hefði verið staðið að verki, í hverju auðgunarbrotið hefði verið falið, hvernig mælt hefði verið fyrir um greiðslur og hvernig útgjöldin voru bókfærð.
Mat á því hvort brot hafi verið framið ræðst hlutlægt séð af því hvort réttlætanlegt hafi verið að gjaldfæra útgjöldin á Baug hf., það er hvort þau hafi skilað Baugi hf. samsvarandi hagnaði. Sé ekki um það að ræða eru þær ólöglegar, nema greiðslurnar séu bókfærðar sem laun, lán eða arður forstjóranna. Þegar sú leið er valin að reka starfsemi innan vébanda hlutafélags þarf að sýna því rekstrarformi fulla virðingu með tilliti til hluthafa, yfirvalda og annarra sem eiga hagsmuna að gæta í tekju- og eignafyrirkomulagi fyrirtækis og stjórnar.
Hvað refsinæmi varðar skiptir ekki máli hver gaf skipanir og annaðist þær greiðslur sem fyrirtækið stóð straum af að ástæðulausu. Aðalatriðið er hvort hinir ákærðu stjórnendur gerðu sér grein fyrir því hvað gerðist og hvort þeir samþykktu það - með beinum eða óbeinum afskiptum. Það skiptir heldur ekki máli hver hagnaðist á brotinu, þeir sjálfir eða einhverjir aðrir. Aðalatriðið er að það er óréttlætanlegt að láta fyrirtækið standa straum af kostnaðinum. Það skiptir minna máli hver hagnast. Í þessu máli er einn forstjóra Baugs hf. meðeigandi í skemmtibátnum og þar af leiðandi leikur enginn vafi á því hver hagnaðist og hver sá hagnaður var. Það hefur hins vegar áhrif á ákvörðun refsingar hverjum var ívilnað. Það er aðeins tæknilegt atriði hvort líta eigi á gjörðina sem fjárdrátt eða umboðssvik. Refsingin er hin sama.
Í öðru dæmi tóku stjórnendur ólögleg lán í Baugi hf. að upphæð 100 milljónir króna til þess að kaupa hluti í fyrirtækinu með aðstoð eins af einkafjárfestingarfélögum sínum (sbr. ákærulið IV 10).
Forstjórar fyrirtækisins færðu því einnig til tekna tvo tilhæfulausa reikninga, samanlagt um 108 milljónir króna, til þess að oftelja tekjur Baugs hf. Bókhaldið sýndi með því mun betri útkomu og hagnað en raunverulegur rekstrarreikningur fyrirtækisins gaf til kynna. Þetta er einföld og sígild aðferð til þess að fegra bókhaldslega stöðu (sbr. ákærulið VI 29).
Athugasemdir Hæstaréttar byggjast á því að ákæran lýsi því ekki hvernig sakborningar fóru að þessu í sameiningu, hvernig mögulegu samstarfi var háttað og í hverju (möguleg) mótfærsla fólst, og hvernig hægt væri að tekjufæra reikninga í fyrirtækinu (29. liður).
Það sem er afgerandi fyrir mat um refsinæmi (í 29. lið) er hvort bókhald Baugs hf. hafi með röngu verið ofreiknað um alls 108 milljónir króna með tveimur tilhæfulausum reikningum og hvort hinir ákærðu hafi vitað af þessu.
Ekki er algengt að tekið sé með í ákæru hvernig tæknilega var farið að og að tilgreint sé í smáatriðum hver gerði hvað. Það fellur undir sönnunarfærsluna.
Það þarf oft að leggja fram mjög víðtækar og ítarlegar keðjur sannana svo hægt sé að sýna fram á tæknilega framkvæmd háþróaðra efnahagsbrota og hver gerði hvað í raun. Peningar eru fluttir með margþættum færslum á milli fyrirtækja og banka, bæði heima og erlendis, þeir eru sendir í hringi, upphæðum er skipt, þær sameinaðar að nýju og svo aftur deilt upp. Margir geta átt hlutdeild að því ferli. Þessum þáttum er aldrei lýst í sjálfri ákærunni, þær lýsingar eiga heima í sönnunarfærslunni. Í ákærunni eiga eingöngu að koma fram helstu þættir kærumálsins og þar á aðeins að lýsa helstu þáttum verknaðarins, tímasetningu hans, stað og einkennum.
Ég geri þær athugasemdir við dóm Hæstaréttar að hann kallar á alveg nýja og aukna umfjöllun um lýsingar á atvikum þar sem fjalla þarf nánar um hvernig staðið var að verki, smáatriði sem einna helst gegna því hlutverki að vera til nánari skýringar, en þó án þess að dómstóllinn skilgreini hvar þær nánari skýringar eiga að hefjast eða enda. Það er mjög óljóst hvert markmiðið með kröfum um nánari skýringar eiginlega er. Hættan er sú að þetta gefi kost á miklum óþarfa rökræðum og réttarfarslegum mótmælum um hve langt skuli ganga í skýringum í ákærum. Hingað til hefur það verið óþarfi því þetta hefur ekki valdið neinum vandræðum. Óskýrar kröfur um nánari skýringar hafa ekkert annað í för með sér en aukinn kostnað og tímasóun.
Við höfum um áratuga skeið lagt fram ákærur í stórum efnahagsbrotamálum. Ákærurnar eru að sjálfsögðu rökræddar og ekki tekst alltaf jafnvel til með þær. Lýsing á háttsemi er þó aðalatriðið. Dómstóllinn velur sjálfur þá lýsingu sem honum finnst hæfa verknaðinum.
Ég hef aldrei kynnst því að ákærðu og verjendur þeirra átti sig ekki á gegn hverju þeir eiga að verjast, jafnvel þótt nánari skýringar í þeim ákærum, sem notast er við annars staðar á Norðurlöndum, séu ekki frábrugðnar þeim sem fyrir liggja í Baugsmálinu. Í ákærunni koma eingöngu fram helstu þættir hennar og sá einn er tilgangurinn. Miklu mikilvægara er að leggja fram sönnunargögnin og hlusta á skýringar vitna.
3. "Réttlát málsmeðferð - The fair balance" - Að vega og meta hvaða tillit á að taka til brotaþola og geranda
Það er orðið bæði tímafrekt og dýrt að fjalla um efnahagsbrot fyrir dómstólum. Fyrir því eru takmörk hve umfangsmikið málið getur orðið áður en tíminn setur meðferð þess sín mörk. Þetta á einkum við um stór efnahagsbrotamál þar sem atburðarásin er úthugsuð, víðtæk og flókin. Við verðum að halda okkur af einurð við það sem skiptir máli fyrir ákærða en forðast óskýrar réttarfarslegar reglur sem orsaka deilur. Þetta gerum við af tillitsemi við brotaþola sem eiga rétt á því að úr málinu sé skorið.
Hér þarf að vega og meta kröfur réttarríkisins og mannréttindi. Þeir sem ákærðir eru eiga rétt á réttlátri málsmeðferð (neikvæðar skyldur ríkisins) en brotaþolar eiga einnig rétt á þeirri vernd sem felst í því að upplýst sé um refsivert athæfi og hinir brotlegu sóttir til saka fyrir það (jákvæðar skyldur ríkisins). Mannréttindadómstóllinn hefur lýst þessu mati á eftirfarandi hátt: " The boundary between the State's positive and negative obligations ... does not lend itself to precise definition. The applicable principles are, nonetheless, similar. In both contexts regard must be had to the fair balance that has to be struck between the competing interests of the individual and of the community as a whole..." Sjá von Hannover gegn Þýskalandi (dómur frá 24. júní 2004, 57. grein).
Samkvæmt dómahefðum Mannréttindadómstólsins verða ríkin að búa við fullnægjandi löggjöf af tillitssemi við fórnarlömbin, málin þarf að rannsaka og rannsóknin verður að vera nægilega skilvirk. Mannréttindadómstóllinn hefur á síðari árum að ýmsu leyti gengið býsna langt í kröfum sínum um lagavernd brotaþola og gerðar eru mjög ítarlegar kröfur um að rannsókn mála sé skilvirk og markviss til þess að uppfylla kröfur hans um skilvirkni. Kröfur um nákvæmni í ákæru hafa einnig verið metnar og þær eru hvergi nærri jafnítarlegar og Hæstiréttur Íslands miðar nú við. Aðalatriðið er að hinir ákærðu viti um hvað ákæran snýst. Nánari skýringar koma fram í sönnunarfærslunni.
Það líður eflaust ekki á löngu uns stórir hópar brotaþola bindast samtökum um að kæra ríki sín fyrir Mannréttindadómstólnum fyrir brotalamir í löggjöf, rannsókn sakamála eða dómaframkvæmd frá sjónarhóli brotaþola séð. Grundvallarviðmiðunin liggur þegar fyrir í skilyrðinu um "réttláta málsmeðferð - The fair balance".
Meta þarf allar reglur um réttarfarslega meðferð, jafnt á grundvelli krafna um sanngjarna málsmeðferð ákærðu sem og um vernd brotaþola. Þessi krafa er einkum mikil þegar um er að ræða umfangsmikil efnahagsbrotamál. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa góðar reglur sem hægt er að vinna eftir.
Höfundur hefur verið saksóknari efnahagsbrotadeildar lögreglu í Noregi (Økokrim - The National Authority for Investigation and Prosecution of Economic and Environmental Crime) síðan 1989. Hann hefur bæði ritstýrt og samið bækur og fjölda greina um efnahagsbrotamál og skrifað kjallaragreinar í ýmis dagblöð. Hann hefur starfað sem kennari og prófdómari við Háskólann í Ósló og aðrar menntastofnanir á háskólastigi.
Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.