Sekir, en samt eitthvað svo saklausir
7. júní, 2008

Það hefur margt verið sagt og ritað um Baugsmálið eftir að dómur Hæstaréttar upp kveðinn. Mikið eru það tuggur, flatneskjur og klisjur og raunar oft á tíðum merkilegt hversu margir menn virðast vera að lesa upp úr sama handritinu. Látum vera þó Jóhannes Jónsson og Hreinn Loftsson noti nákvæmlega sama tungutak, það hefur hent þá áður, en þarf annar hver maður endilega að éta upp mjálmið um „rýra eftirtekju“ og að „hátt hafi verið reitt til höggs“? Íslenskan er auðugri en svo að þessi metafórumixtúra ein geti lýst þeirri afstöðu. Eða hitt að þar sem aðeins hafi verið sakfellt í einum ákærulið af svo og svo mörgum sé dómurinn nánast ómark. Nánast sýkna las ég einhversstaðar! En þeir voru sekir fundnir og það fyrir allnokkrar sakir, þó eftir á kunni Gesti Jónssyni, hrl., að finnast það lítilfjörlegasti ákæruliðurinn. Hann hefur haft þau orð um fleiri ákæruliði á undanförnum árum. Þá líta menn einnig hjá því að margvísleg breytni sakborninga var talin ólögleg án þess að þeim væri refsað fyrir það af ýmsum misjafnlega gildum ástæðum.

Pétur Gunnarsson, ritstjóri Eyjunnar, hlífir lesendum sínum þó við endurteknum orðaleppum þegar hann fjallar um lyktir Baugsmálsins fyrir Hæstarétti og spyr hvað hið brennda barn hyggist fyrir. Svarið er þá væntanlega að það skuli forðast eldinn. Hefði maður þó haldið að ekki veitti af smá hreinsunareldi. Ekki aðeins vegna Baugsmanna með kámugar lúkurnar, heldur vegna íslensks viðskiptalífs, orðspors þess ytra og hins allra mikilvægasta: Með lögum skal land byggja.

Pétur nefnir að hann hafi á einskis klafa bundið sig í Baugsmálinu og raunar ekki þolað hvernig þjóðfélaginu hafi einhvernveginn verið skipt í lið í málinu. Samt virðist hann nú hafa kokgleypt allar samsæriskenningar Baugsmanna. Hann tiltekur fimm skoðanir, sem eftir sitja hjá honum, og mér finnst rétt að gera athugasemdir við:

1. Málatilbúnaðurinn í Baugsmálinu er hneisa fyrir íslenska ríkið - hvernig sem á því stendur var valdi þess misbeitt í smáskítlegri aðför að einstaklingum.


Um málatilbúnaðinn má sjálfsagt deila, en hann var a.m.k. ekki nógu góður til þess að standast vafa þann, sem vörnin reisti, og gaf dómurum nægilegt svigrúm til þess að dæma eins og þeir gerðu. Þar held ég hins vegar að helsta hneisan liggi og þá fyrst og fremst í héraði, þar sem jafnvel einfalt tollsvikamál varð allt í einu flókið fyrir þaulreynda dómara og vafi um ásetning látinn skipta einhverju. Það fordæmi er þegar farið að draga dilk á eftir sér. Einnig má taka lánamálin, svikin í kringum Arcadia-dílinn, fjárdráttinn o.s.frv. þar sem sægur dómafordæma var látinn fjúka út í veður og vind. Eða hvernig þessir stjórnendur og stórir hluthafar í almenningshlutafélagi villtu vísvitandi um fyrir markaðnum, en dómurinn kaus að líta framhjá því af því að hann skilur ekki eðli rafrænna skjala. Það þarf ekki að skoða málsskjölin, sem Jón Gerald Sullenberger birtir á baugsmalid.is lengi til þess að átta sig á því að þarna var á ferðinni gamaldags fjársvikamylla í nýja hagkerfinu. Í því ljósi er fullkomlega fráleitt að halda því fram að einhver hafi misbeitt valdi „í smáskítlegri aðför að einstaklingum“; af gögnunum er augljóst að full efni voru til víðtækrar rannsóknar og ákæru.

2. Það má samgleðjast Morgunblaðinu fyrir að hafa fengið sér nýjan ritstjóra áður en þessi úrslit lágu fyrir - nú er tímasetningin á breytingunni skiljanlegri en áður.


2. Það má vafalaust samgleðjast Morgunblaðinu fyrir að hafa fengið nýjan ritstjóra, en að tímasetningin komi dómsuppkvaðningunni eitthvað við er auðvitað út í bláinn. Það er búið að liggja fyrir frá um 1970 að Styrmir Gunnarsson ætti ekki að starfa lengur á Mogga en til fram á vor 2008.

3. Bara að menn fari nú ekki að reyna að komast undan afleiðingunum, sem eru þær að Jón Ásgeir þarf að hætta sem forsvarsmaður allra hlutafélaga - eins fáránlegt og það er miðað við hvernig málið er vaxið. Það eru lögin.


Jón Ásgeir Jóhanneson mun örugglega hætta sem stjórnarmaður í hlutafélögum. En það breytir engu um eignarhaldið, allir vita hvernig því er háttað og hann getur hæglega annast alla samningagerð og stefnumótun, þó í orði kveðnu taki aðrir ákvarðanirnar, undirriti samninga og annað slíkt. Í stjórn Baugs eru sjö manns, þó Jón Ásgeir víki eru Jóhannes Jónsson faðir hans, Kristín Jóhannesdóttir systir hans, Ingibjörg Pálmadóttir eiginkona hans og Hreinn Loftsson eftir sem áður meirihluti stjórnar. Lögin hér kveða aðeins á um formið, en á Englandi hefði þessi dómur jafngilt útlegð úr viðskiptalífinu.

4. Svo þarf að draga menn til pólitískrar ábyrgðar á þessu hneyksli og efna til gagngerrar rannsóknar á þessu máli og tilurð þess.


Ég átta mig ekki á því hverja ætti að draga „til pólitískrar ábyrgðar á þessu hneyksli“. Sólveigu Pétursdóttur? Og þá fyrir hvað? Að hafa ekki tekið fram fyrir hendurnar á löggæslunni og ákæruvaldinu? Pétur virðist gleyma því að dómstólar, bæði í héraði og Hæstarétti, hafa fjallað um upphaf málsins og það er ekki eins og ásakanir hinna seku um pólitískt samsæri gegn sér hafi ekki hlotið umfjöllun. En það hefur ekki reynst fótur fyrir þeim. Það má vel vera að Davíð Oddsson hafi haft ímugust á Baugsmönnum og vafalaust má finna ýmsa aðra stjórnmálamenn í öllum flokkum, sem hafa skömm á þeim. En það hefur nákvæmlega ekkert komið fram, sem bendir til óeðlilegra afskipta stjórnmálamanna af málsmeðferðinni. Ekkert. Dómurinn nú staðfesti enda að hér var bara um hefðbundin, subbuleg fjársvik að ræða og engin pólitík í því, þó hinum Baugsmönnum þyki það þægilegri skýring en hin augljósa: að þeir gerðust sekir um auðgunarbrot. En kannski það sé ástæða til þess að efna til „gagngerrar rannsóknar á þessu máli og tilurð þess“. Ég efa hins vegar að Jón Ásgeir og Tryggvi telji það verða sér til mannorðsauka, því í slíkri rannsókn yrði vitaskuld að gaumgæfa tilefnin og grandskoða öll gögn málsins.

5. En ekki bjóða upp á það að Jón Ásgeir sæki um - og fái - náðun og sakaruppgjöf úr hendi Björns Bjarnasonar. Þá flyt ég úr landi.


Það gerist sjálfsagt seint að Jón Ásgeir sæki um og fái náðun úr hendi Björns Bjarnasonar. Ætli hans elsku vinur forsetinn, herra Ólafur Ragnar Grímsson, taki það ómak ekki af dómsmálaráðherra?





Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.