Ég get ekki stillt mig um að rita hér örfáar línur um "skytturnar þrjár" sem tilheyra Baugsveldinu en eins og lesendur sjá í kaflanum um Fjárfar ehf. og Litla fasteignafélagið ehf. eru Baugsmenn afskaplega duglegir að nota "leppa" til að ná markmiðum sínum.

Þessir herramenn heita:


Allir þessir herramenn hafa komið til mín á Flórída og skemmt sér vel og lengi á hinum margfrægu bátum THEE VIKING í boði Jóns Ásgeirs og er frægasta ferðin án efa þegar fagnað var kaupum á Vífilfell hf. en þau veisluhöld rötuðu alla leið fyrir dómstóla í Bandaríkjunum eins og frægt er orðið, sjá nánar kaflann "Með kverkatak á þjóðinni".

Allir þessir herramenn voru einnig viðstaddir steggjapartý Jóns Ásgeirs á sveitasetri hans í London á sl. ári en þar var einungis boðið hans nánustu vinum og samstarfsaðilum.

Þorsteinn Jónsson var svo einnig settur inn sem stjórnarformaður Glitnis banka þegar Baugsmenn komust þar til valda.

Þorsteinn situr svo einnig í dag að auki í stjórn Teymis hf. sem er að stærstum hluta í eigu Baugsmanna.

Stærsti hluti fjárfestinga þremenninganna Þorsteins, Magnúsar og Pálma Haraldssonar í Fons undanfarin ár tengjast Baugsfyrirtækjum og hafa margar þeirra vakið upp áhugaverðar spurningar.

Í mars 2007 t.d. kaupir Fons, eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar talsvert af bréfum í 365.

Óli Björn Kárason, fyrrum ritstjóri viðskiptablaðsins kemst svona að orði um kaup Pálma á bréfum félagsins:

"Hlutabréf 365 hækkuðu um 2,30% í dag. Afhverju. Ja, það má Guð vita. Það hefur ekkert gerst og engar fréttir borist sem réttlæta þessa hækkun. Raunar hefur skynsemi aldrei virkað vel þegar reynt er að meta verðmæti þessa stærsta fjölmiðlafyrirtækis landsins.

.....Nú geta menn velt því fyrir sér afhverju Pálmi Haraldsson ákvað að kaupa fyrir yfir 200 milljónir króna í 365. Ég kann enga skýringu, nema þá að annað hangi á spýtunni sem er alls ótengt 365."


Pálmi Haraldsson keypti einnig Öryggisfyrirtækið Securitas af Baug á tæplega 4.000 milljónir í gegnum óstofnað eignarhaldsfélag sem hann hyggðist setja á stofn.

Vefsvæðið www.heimur.is sem m.a. gefur út tímaritið Frjálsa Verslun komst þá svo að orði varðandi söluna á Securitas:

"26. febrúar: Fons kaupir Securitas
Það er gaman að fylgjast með því að þegar félög, sem vinna náið saman í fjárfestingum eins og Baugur, Fons, FL Group, 365, Dagsbrún og áfram mætti telja, eiga viðskipti innbyrðis.

Innan viðskiptalífsins eru svona fréttir yfirleitt kallaðar: Baugur selur Baugi. Frétt af þessum toga var þegar Fréttablaðið sagði frá því að óstofnað félag í eigu Fons hefði keypt öryggisfyrirtækið Securitas af Teymi á 3,8 milljarða króna.

Jafnframt var sagt að áætlaður söluhagnaður Teymis væri 500 milljónir króna. Allaf fróðlegt þegar „óstofnuð félög“ snara út 3,8 milljörðum."


Þann 5. júlí, 2005 skrifar Pálmi Haraldsson mjög áhugaverða grein í Morgunblaðið til varnar lærimeistara sínum og guðföður, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og segir þar m.a:

"Nú hefur það gerst að þessi sómi landsins er sestur á sakamannabekk. Ekki veit ég hvort það eigi rætur að rekja í pólitík, öfund, vanþekkingu á því hvað sé debet og hvað sé kredit í reikningshaldi og hvað þá flóknari atriðum reikningshalds eða misskilningi kerfiskarla á eðli viðskipta.

Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að ástæða þess getur ekki verið óheiðarlegt atferli Jóns Ásgeirs. Ég hef bæði gert fjölda samninga við Jón Ásgeir og með honum. Ég get staðfest og lagt dreng skap minn að veði fyrir því að Jón Ásgeir hefur aldrei svikið, hann hefur aldrei sagt ósatt, hann hefur aldrei farið á bak við neinn, hann hefur fremur verið of örlátur við viðskiptamenn sína og samfélagið að mínu mati en hitt.

Jón Ásgeir er ekki þeirrar manngerðar að ætla sjálfum sér allt og skilja ekkert eftir. Slíkir menn stunda ekki auðgunarbrot eða annars konar refsiverða háttsemi".


Ætli hluthafar og "stofnendur" Fjárfars ehf. séu sammála þessum orðum Pálma ?

Ætli stjórnarmenn og stjórnarformaður almenningshlutafélagsins Baugs hf. séu sammála þessum orðum Pálma ?

Jafnframt má geta þess að bæði Þorsteinn og Magnús Ármann voru teknir til yfirheyrslu hjá lögreglu í Baugsmálinu en þeir tengdust sumum ákæruliðunum.

Þessir kappar er því eins "innvígðir og innmúraðir" í Baugsveldið eins og frekast er unnt svo vitnað sé til frægs orðalags.

Eflaust spyrja margir af hverju ég skrifa um þessa þrjá herramenn á síðu sem fjallar um Baugsmálið.

Svarið er einfalt.

Þeir njóta nefnilega þess vafasama heiðurs að hafa setið í stjórn 365 miðla undir stjórnarformennsku Jóns Ásgeirs, þegar íslandsmet í taprekstri var sett árið 2006 uppá rúmlega 7.000 milljónir króna.

Þorsteinn Jónsson og Magnús Ármann sátu svo einnig í stjórn FL Group undir stjórnarformennsku Jóns Ásgeirs þegar núverandi íslandsmet í taprekstri var sett árið 2007 uppá tæplega 80.000 milljónir og í dag er Pálmi Haraldsson einnig orðinn varaformaður stjórnar FL Group og Jón Ásgeir, sem fyrr er stjórnarformaður.

Það er nefnilega ýmislegt varðandi fréttaflutning af almenningshlutafélaginu FL Group sem hljómar mjög kunnuglega í mín eyru, og ber þar hæst hið gríðarlega stjórnlausa peningaflæði úr sjóðum FL Group á kostnað hins almenna hluthafa í félaginu.

Einföld leit í gagnasafni mbl.is sem og www.google.com skilar ótrúlega áhugaverðum fréttum af þessu FL group fyrirtæki.

Rekstrarkostnaður FL Group fyrir árið 2007 er án efa sá hæsti í Íslandssögunni, uppá rúmlega 6.000 milljón krónur en einungis um 50 starfsmenn unnu hjá félaginu.

Það jafngildir um 120 milljón krónum per starfsmann í rekstrarkostnað !

Sem fjármálafyrirtæki hefur FL Group einungis hefðbundinn rekstrarkostnað s.s. laun, húsaleigu, sérfræðiþjónustu og svo auðvitað ferðalög.

50 starfsmenn. 6.100 milljón krónur í rekstrarkostnað !!!

Ritstjóri Frjálsrar Verslunar ritar athyglisverða grein um þennan rekstrarkostnað.

Rúv.is birti nýlega frétt þess efnis að FL group og Pálmi Haraldsson í Fons, hafi keypt og selt flugfélagið Sterling á milli sín í nokkrum viðskiptum fyrir um 40.000 milljónir.

Pálmi Haraldsson keypti flugfélagið Sterling sem danskir miðlar sögðu á þeim tíma algerlega verðlaust vegna tapreksturs/skuldabagga á 4.000 milljonir krónur en hann seldi það svo nokkrum mánuðum seinna til FL group á 15.000 Milljónir.

Ég spyr:
Hvað gerðist í rekstri Sterling á nokkrum mánuðum sem jók verðmæti félagsins úr 4.000 milljónum í 15.000 milljónir króna sem hluthafar almenningshlutafélagsins FL group greiddu fyrir félagið ?

Hagnaður Pálma Haraldssonar í Fons, eins nánasta samstarfsaðila Jóns Ásgeirs, var á einungis örfáum mánuðum 11.000 milljón krónur á kostnað hins almenna hluthafa almenningshlutafélagins FL Group.

Saman stofna svo FL group og Pálmi Haraldsson félagið Northern Travel Holding og selja Sterling á 20.000 milljónir króna til þessa nýja félags en eignarhlutur Pálma og FL Group samanlagt nemur um 80% en hið öfluga fjárfestingarfélag Sund ehf. er sagt eiga 20%.

Ég spyr:
Hvað gerðist í rekstri Sterling flugfélagsins sem skýrir 500% hækkun á verðmæti félagsins þar sem Pálmi Haraldsson keypti félagið upphaflega á 4.000 milljón krónur?

Ég spyr:
Af hverju er Pálmi Haraldsson sem græddi 11.000 milljónir á verðlausu flugfélagi, að kaupa sama verðlausa flugfélagið á 20.000 milljónir tilbaka í gegnum nýtt félag þar sem hann er jafnframt Stjórnarformaður sem og stærsti hluthafinn ásamt FL Group ?

Ég get bara talað fyrir sjálfan mig en ef ég myndi hagnast um 11.000 milljónir á örfáum mánuðum þá myndi ég ekki kaupa tilbaka hina verðlausu eign sem ég seldi með þessum ótrúlega hagnaði - hvað þá að greiða 5.000 milljón krónum meira fyrir hana !

Það hefur einnig birst opinberlega að almenningshlutafélagið FL group veitir þessu nýja félagi, Northern Travel Holding 14.000 milljóna króna seljendalán en eins og fyrr segir er FL group einn stærsti hluthafinn í þessu sama félagi ásamt Pálma Haraldssyni !

M.ö.o., almenningshlutafélagið FL Group, sem jafnframt er einn stærsti hluthafi Northern Travel Holding, sem er að kaupa Sterling á 20.000 milljónir, lánar félaginu 14.000 milljónir til að geta keypt flugfélagið Sterling af FL Group ?

Eru fleiri en ég búnir að missa þráðinn hérna ?

Í febrúar 2008 sl. skrifar danska viðskiptablaðið Börsen grein um Sterling flugfélagið og fullyrðir að ekki sé hægt að selja Sterling á 1 krónu í dag vegna mikils tapreksturs og skuldabagga.

Orðrétt skrifar Börsen:

"Heimildarmaður innan flugvélabransans fullyrðir að Sterling sé verðlaust í dag. Ef sala eigi að fara fram á félaginu væri einungis hægt að selja félagið á 0 krónur sem og afhenda alla þá fjármuni sem safnast hafa vegna fyrirfram greiddra farseðla".


Vekur það engar spurningar að almenningshlutafélagið FL group sem er að stórum hluta í eigu Baugs og með Jón Ásgeir sem stjórnarformann og einn helsti viðskiptafélagi hans, Pálmi Haraldsson í Fons, skuli selja Sterling á milli sín, fram og tilbaka, fyrir samtals tæplega 40.000 milljónir króna sbr. frétt ruv.is hér að ofan?

Skv. veftímaritinu www.eyjan.is kallar seðlabankastjóri Íslands, FL Group FL-Enron.

Enron málið er án efa stærsta fjársvikahneyksli Bandaríkjanna þar sem menn fölsuðu bókhald og bjuggu til sýndarviðskipti og földu töp og lán í undirfélögum eins og frægt er og mjólkuðu félagið að fjármunum með mjög vafasömum bókhaldsfærslum og viðskiptum milli tengdra aðila.

Ég spyr:
Hvað veit seðlabankastjóri Íslands sem markaðurinn veit ekki ?

Nú berast fréttir að FL Group verði tekið úr Kauphöll Íslands og þar með verður engin upplýsingaskylda um afkomu eða fjárfestingar.

Líkt og Baugur ehf. verður félagið rekið sem einkahlutafélag án allra afskipta Kauphallarinnar eða eftirlitsaðila.

Mánudaginn 5. maí fullyrðir danska viðskiptablaðið Börsen að helstu eigendur Northern Travel Holding vilji losna úr félaginu vegna skulda. Jafnframt er fullyrt að skuldir félagsins strax við stofnun hafi verið 20 þúsund milljónir og núverandi skuldir félaga í eigu Northern Travel Holding það miklar að félagið sé í raun verðlaust og stefni í gjaldþrot.

Pálmi Haraldsson, varaformaður stjórnar FL group og stjórnarformaður Northern Travel Holding þvertekur fyrir slíkar vangaveltur og segir hvorki hann né Sund ehf. sé að reyna að selja sinn hluta í félaginu Northern Travel Holding.

Mbl.is - Innlent - 5. maí, 12:36 - Gísli Freyr Valdórsson
Pálmi Haraldsson: Engin áform um að selja

"Pálmi Haraldsson, forstjóri og annar aðaleigandi Fons segir að engin áform séu uppi um að Fons og Sund, tveir af þremur aðaleigendum Northern Travel Holding, séu nú að reyna að selja sig út úr félaginu eins og danska viðskiptablaðið Børsen fullyrðir í frétt í blaðinu í dag.

„Þessi blaðamaður frá Børsen hringdi í mig og ég neitaði þessu ítrekað,“ segir Pálmi í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að það sé rangt í frétt Børsen að talsmenn Fons hafi ekki hafnað fréttinni alfarið.

Fons á 44% hlut í Northern Travel, FL Group [FL] á 34% og Sund 22% en auk danska lággjaldafélagsins Sterling og Iceland Express á Northern Travel Holding meirihlutann í breska flugfélaginu Astreus og þriðjungshlut í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket.

Pálmi segir að þrátt fyrir það árferði sem nú ríkir á mörkuðum og þá sérstaklega í flugrekstri gangi félögin vel. Mörg þeirra séu að upplifa sín bestu ár til þessa og engin áform séu uppi um að breyta því.

„Eins og staðan er núna eru engin áform um breytingar á þessum hlutum,“ segir Pálmi í samtali við Viðskiptablaðið."


Morgunblaðið birtir hinsvegar frétt þess efnis að Sund ehf. hafi selt allan sinn hluta í desember 2007 og sé því ekki lengur hluthafi í Northern Travel Holding.

Viðskipti | Morgunblaðið | 6.5.2008 | 05:30
Sund er ekki hluthafi í NTH

"Sund ehf. er ekki lengur hluthafi í Northern Travel Holding (NTH), sem m.a. er eignarhaldsfélag flugfélaganna Sterling og Iceland Express. Að sögn Jóns Kristjánssonar, stjórnarformanns, var 22% hlutur Sunds seldur í lok síðasta árs.

Þorsteinn Örn Guðmundsson, forstjóri NTH, staðfesti við Morgunblaðið að hlutur Sunds væri nú í eigu NTH. Aðrir hluthafar eru Fons hf. með 44% og FL Group með 34%.


Viðskiptablaðið birti einnig frétt þess efnis á vef sínum.

Danska viðskiptablaðið Börsen hafði svo eftir ónefndum heimildamanni að Sund og Fons hygðust selja hlut sinn í NTH. Ljóst er að Sund er ekki „á útleið“ og Pálmi Haraldsson í Fons hafnar því alfarið að sala sé á dagskrá.

„Blaðamaður Börsen hringdi í mig og ég neitaði þrisvar þegar hann spurði mig aftur og aftur hvort ég ætlaði að selja hlutinn í Sterling og hvort ég ætlaði að selja hlutinn í Northern Travel Holding,“ segir Pálmi, pirraður út í danska blaðamenn. Börsen hefur eftir Pálma að sala hafi aldrei verið rædd í stjórninni, en fyrirsögn fréttarinnar er engu að síður „Eigendur Sterling leitast við að losna“.

Enginn samruni í bígerð nú
Pálmi segir þó að að sjálfsögðu sé ekkert útilokað um hvað gerist með félögin í framtíðinni. Eins og í viðskiptum almennt sé eðlilegt að hafa augun opin.

Þorsteinn Örn Guðmundsson tekur undir orð Pálma. Um þessar mundir sé NTH ekki að vinna að neinum samruna, en almennt megi eiga von á frekari samþjöppun á markaði lágfargjaldaflugfélaga."


Óli Björn Kárason skrifar eftirfarandi á vefsíðu sína www.t24.is vegna þessara röngu upplýsinga frá FL Group og Northern Travel Holding:

6. maí 2008
Óskiljanlegar fréttir um NTH, Fons og Sund

"Viðskiptablaðið hefur það eftir Pálma Haraldssyni, aðaleiganda Fons, að engin áform séu uppi um að Fons og Sund, selji hluti sína í Northern Travel Holding (NTH), eins og danska viðskiptablaðið Börsen hefur haldið fram. Í Morgunblaðinu kemur hins vegar fram að Sund eigi ekki lengur hlut í NTH og vitnar í Jón Kristjánsson stjórnarformann Sunds. Þorsteinn Örn Guðmundsson, forstjóri NTH staðfestir síðan við Morgunblaðið að 22% hlutur Sunds sé í eigu félagsins sjálfs.

Fons á 44% hlut í NTH og FL Group á 34% og samkvæmt frétt Morgunblaðsins hefur Sund gengið úr skaftinu og félagið sjálft eignast hlutabréfin. Í ársreikningi FL kemur ekkert fram um verðmæti þessara hlutabréfa.

Frétt Viðskiptablaðsins er í veigamiklum atriðum á skjön við frétt Morgunblaðsins. Pálmi Haraldsson ræðir greinilega við blaðamann Viðskiptablaðsins út frá því að Sund sé enn hluthafi í félaginu og blaðamanni er greinilega ekki kunnugt um þær upplýsingar sem Morgunblaðið birtir.

Ósamhljóða fréttir þessara tveggja blaða vekja upp spurningar um stöðu NTH og setja frétt Börsen í ákveðið ljós. Þó Pálmi segist neita fréttum blaðsins er ljóst að einn hluthafinn hefur þegar sagt skilið við félagið en Pálmi Haraldsson taldi ekki rétt að upplýsa um það í viðtali við Viðskiptablaðið."


7. maí 2008 skrifar svo Óli Björn aftur:

Spurningum enn ósvarað um NTH

"Vakin var athygli á því hér á T24 að ósamræmi væri á milli frétta Morgunblaðsins og Viðskiptablaðsins af málefnum Northern Travel Holding (NTH), sem meðal annars rekur Sterling flugfélagið. Svo virðist sem Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Fons, hafi viljandi reynt að halda upplýsingum leyndum fyrir blaðamanni Viðskiptablaðsins.

NTH er óskráð félag og var í eigu þriggja hluthafa, en fyrir lok síðasta árs gekk Sund úr skaftinu og keypti NTH hlutabréfin af Sundi.

Í sjálfu sér er ekkert við því að segja þó óskráð félög haldi upplýsingum leyndum. En forráðamenn óskráðra félaga hafa hins vegar yfirleitt reynt að fylgja þeirri meginreglu að villa ekki um fyrir blaðamönnum og almenningi.

NTH er hins vegar ekki venjulegt óskráð félag, heldur er FL Group hluthafi í félaginu með um 34% hlutafjár. FL Group er skráð í Kauphöllinni (þó stjórn félagsins hafi óskað eftir afskráningu).

Allar upplýsingar um rekstur og efnahag félaga sem hafa áhrif á afkomu og stöðu FL Group eru því viðkvæmar og stjórn FL hlýtur að gera sérstakar kröfur til forráðamanna hlutdeildarfélaga.

Viðskiptablaðið birtir í dag aðra frétt um NTH og segir frá því að Sund hafi selt sinn hlut fyrir áramót, líkt og Morgunblaðið hafði þegar greint frá. Sund mun ekki hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af sölunni, ef marka má frétt Viðskiptablaðsins."


Ég hvet alla lesendur til að lesa kaflann um Fjárfar ehf. sem birtist hér á síðunni þar sem fjölmargir einstaklingar segjast hafa verið blekktir vegna Fjárfars ehf. þar sem raunverulegt eignarhald á félaginu var falið vel og vandlega.

Enginn af stjórnarmönnum almenningshlutafélagsins Baugs vissi af tengslum Jóns Ásgeirs við Fjárfar ehf. þegar 10-11 keðjan var seld til almenningshlutafélagsins Baugs með gríðarlegum hagnaði.

Sá aðili sem átti og stjórnaði Fjárfar ehf. hagnaðist því verulega.

Framburðir þessara einstaklinga má finna í kaflanum um "Leynifélagið Fjárfar ehf.".

Síðan væri gaman ef einhver gæti upplýst mig:

Af hverju sagði öll stjórn FL Group af sér árið 2005 og gekk út eins og frægt er orðið ? Ég finn fréttir þess efnis í gagnasafni mbl.is en ég finn engar skýringar.

Helstu viðskiptafélagar Baugsmanna settust þá í stjórn og hafa haldið þar öllum völdum síðan.

Af hverju sagði forstjóri FL Group, Ragnhildur Geirsdóttir, af sér árið 2005?

Hvað gerðist eiginlega ?

Af hverju var ekki sagt frá því að eini hluthafinn í Northern Travel Holding sem ekki tengist Baugsveldinu, fjárfestingarfélagið Sund ehf., hafi selt allan hlut sinn í félaginu í árslok 2007 fyrr en núna í maí 2008 ?

Hversu mikið greiddi Sund ehf. fyrir 22% hlut sinn í Northern Travel Holding?

Hversu mikið fékk Sund ehf. fyrir hlut sinn sl.áramót þegar Northern Travel Holding keypti hlutinn tilbaka ?

Hvernig greiddi Northern Travel Holding fyrir hlut Sunds ehf. miðað við tugmilljarða skuldastöðu?

Af hverju var Northern Travel Holding að kaupa hlut Sunds ehf.tilbaka ? Hver er tilgangurinn með þeim kaupum ?

Af hverju sagði Pálmi Haraldsson ósatt við blaðamenn Börsen og viðskiptablaðsins sbr. um eignaraðild Sund ehf. hér að ofan að félaginu Northern Travel Holding ?

Hvert er verðmæti flugfélagsins Sterling í dag sem Baugsmenn og félagar þeirra hafa hent á milli sín fyrir um 40.000 milljónir sbr.frétt RÚV hér að ofan ?

Hversu mikið af þessum 14.000 milljónum sem almenningshlutafélagið FL Group lánaði Northern Travel Holding til að kaupa flugfélagið Sterling hefur verið greitt tilbaka ?

Ég leyfi lesendum að draga sínar eigin ályktanir af þessum vangaveltum mínum.

Ég hvet alla sem hafa frekari upplýsingar um þetta blessaða almenningshlutafélag FL Group eða Northern Travel Holding að senda mér póst á jon@nordicaexport.com.

Gestabókin er einnig opin.


Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.