"With a little help from friends"
Einu sakfellingar héraðsdóms í Baugsmálinu svokallað á hendur Jóni Ásgeir var vegna tilhæfulauss reiknings sem ég var beðinn að senda almenningshlutafélaginu Baug uppá rúmlega 60 milljón krónur.Tilgangur þessa reiknings var augljóslega að fegra afkomu Baugs rétt fyrir uppgjör vegna afkomutalna sem birtast í kauphöll Íslands en góðar afkomutölur skipta sköpum varðandi gengi hlutabréfa og verðmæti þeirra.
Fyrirtæki sem áttu mikið í Baug hf. s.s. Gaumur og Fjárfar myndu því hagnast mikið ef gengi bréfa hækkaði sem aftur gaf einnig tækifæri til að veðsetja bréfin og fjárfesta enn frekar.
Sérhver lækkun á bréfum myndi einnig þýða minni tækifæri til veðsetningar og jafnvel krafa frá bönkum um frekari tryggingar varðandi bréf sem voru þegar veðsett.
Það voru því mjög ríkir hagsmunir af því að hafa afkomutölur almenningshlutafélagsins Baugs hf. í lagi.
Fjölmargar færslur voru í bókhaldi almenningshlutafélagsins Baugs hf. sem ættu að vekja alla hugsandi menn til umhugsunar.
Þær eiga allar sameiginlegt að vera háar tekjufærslur sem höfðu umtalsverð áhrif á bókfærða afkomu Baugs hf.
Flestar voru þær færðar sem lokafærslur í tengslum við árshlutauppgjör og ársuppgjör Baugs hf. en Jón Ásgeir og Tryggvi Jónsson tóku virkan þátt í þeirri vinnu og kynntu svo afkomutölur Baugs hf. fyrir stjórninni og sendu síðan til Kauphallar Íslands.
Um það vitnar t.d. framburður Jón Ásgeirs fyrir dómi um lokafærslur:
"Já það getur verið að ég í einhverjum tilfellum hafi gert athugasemdir við lokafærslur.Það gefur nú bara augaleið að forstjóri fer yfir hvaða lokafærslur endurskoðandi er að koma með".
Lítum nú á nokkra pósta sem fundust í tölvum Baugsmanna og eingöngu í tölvum þeirra þ.e. engir af þessum póstum snerta mig eða fyrirtæki mitt.
Það er til marks um hversu slæm fjárhagsstaða almenningshlutafélagsins Baugs var á uppgangsárum félagsins (enda félagið með viðamikla "lánastarfsemi") að Linda Jóhannsdóttir sem starfar í fjármáladeild Baugs hf. sendir eftirfarandi póst til Tryggva Jónssonar 23.janúar 2001:
"Sæll TJ,
Ég skil ekki þessi skilaboð. JÁJ talar um að greiða þurfi um 150 milljónir á föstudag og hann mun reyna að redda þeim fjármunum. 3.1 milljón pund er ca.380 milljónir.
Eru þetta ekki sömu bréfin og við keyptum og ætlum að framselja til Lúx? Það sem við keyptum er einmitt 3.1 milljón punda og skuld ca. 310 milljónir á gjalddaga 1/2/01.
ég verð því miður að hryggja þig með því að sjóður okkar er sprunginn og þá meina ég að ég get ekkert gert eins valdalaus og ég er. Staðan er svona:
Skammtímalán til 2/2 = - 1.050 milljónir
Áætluð staða í lok mánaðar á heftinu = - 470 milljónir (heimild er 380)
Skuld Arcadia á gjalddaga 1/2 = - 310 milljónir
Áætluð staða þann 2/2 þegar skammtímalán eru greidd, mun sjóður okkar vera
- 700 milljónir og enda í - 1200 milljónum í lok febrúar !!!
Nú er það svart,
Litla stúlkan með eldspýturnar
Daginn eftir póstinn frá Lindu hér að ofan sendir svo Jón Ásgeir hinn fræga "With a little help from friends" póst og sé fjárhagsstaða Baugs hf. tekin með í myndina er augljóst að grípa þarf til róttækra aðgerða til að hafa afkomutölur Baugs í lagi svo gengi bréfa Baugs og tiltrú markaðarins haldist.
24.janúar, 2001 sendir Jón Ásgeir eftirfarandi tölvupóst til Tryggva Jónssonar og systur sinnar, Krístinar Jóhannesdóttur sem er framkvæmdastjóri Gaums ehf.
Pósturinn ber heitið "With a little help from friends" og fannst í tölvu Tryggva Jónssonar við handtöku hans:
"Sæll. Ljóst að við verðum að fá hjálp frá Gaum til að koma uppgjöri í rétt horf. 45 milljóna reikningur verður sendur á Gaum.
-10 milljónir ferðakostnaður
-25 milljónir tölvuþjónusta
-10 milljónir óskilgreindur kostnaður
Gaumur færir þetta á eignalykil 25 mills rest gjaldfært.
Gaumur greiðir þetta þegar Baugur kaupir bréf af Gaumi í Arcadia, einnig gerir þá Gaumur upp viðskiptareikning skuldabréf hjá Bónus og önnur mál.
.....ég veit að þetta kann að fara í pirrurnar á sumum en ég tel nauðsynlegt að verja þá hagsmuni að afkoma Baugs sé í lagi, sérstaklega eftir síðasta útboð. Einnig þarf trú markaðarins að vera góð þegar við förum í Arcadia málið. Annars allt gott. Jón Ásgeir".
Ég vek sérstaka athygli á orðalaginu "..ljóst að við verðum að fá hjálp frá Gaum til að koma uppgjöri í rétt horf" og "ég tel nauðsynlegt að verja þá hagsmuni að afkoma Baugs sé í lagi".
Hvað á Jón Ásgeir við með þessum orðum ?
Við húsleit KB banka í Lúx fundust reikningar í eigu Baugsmanna og Baugs hf. sem fáir vissu um.
Í pósti sem Tryggvi Jónsson sendir til Magnúsar Guðmundssonar hjá KB banka Lúx koma fram atriði sem einnig vekja upp spurningar:
"Sæll félagi.
Til að staðfesta það sem ég sagði við þig í símann um daginn þá framlengdi ég láninu lengur í Íslandsbanka en við töluðum um eða til 1.febrúar. Þá þarftu að leysa til þín 3.1 milljón bréf. Skuldin við íslandsbanka er um 1.4 milljón pund sem er um 0.452 pund á bréf. við seljum þér bréfin p.r. 29.desember á genginu 0.85 og kaupum þau fljótlega aftur í janúar (þ.e. Baugur Holding) á genginu 1.10 Við vorum áður búnir að ræða hvað við gerum við mismuninn. Miðað við gengið 1.46 (eins og síðustu upplýsingar benda til að gengið fari í) er verðmæti bréfanna um 4.5 milljón pund. Ágætis arðsemi þar !".
TJ sendir svo annan póst til Magnúsar, KB Banka Lúx, 21.mars.2001
"OK.....hvað eigum við marga hluti í A-holding ? Þú manst að við "seldum" þér á 0.85 og þú seldir síðan til Baugur Holding á 1.35 (minnir mig) og Baugur Holding lagði það síðan inní A-Holding."
M.ö.o. almenningshlutafélagið Baugur selur KB banka Lúx bréf á genginu 0.85 pens (samtals 322 milljónir) en kaupa svo nokkrum mánuðum seinna tilbaka í gegnum Baug á genginu 1.35 pens (samtals 544 milljónir) sem er rúmlega 240 milljónum meira !
Tölvupóstar varðandi þessa fléttu má lesa hér en bókarar og fjármálastjórar baugs eru ekki alveg að skilja þessi viðskipti enda engir samningar til um eitt eða neitt og býsna undarlegt að selja bréf í desember 2000 á genginu 0.85 og kaupa svo strax aftur í janúar 2001 á 1.35 per hlut eða hvað ?
Lesa tölvupósta
Jafnframt segir Magnús frá í framburði sínum að ef þessir leynireikningar Baugs í Lúx hefði verið uppi á borðum í almenningshlutafélaginu Baug og skýrt rétt frá honum í bókhaldi Baugs þá hefðu sumar færslur engin áhrif haft á rekstrarniðurstöðu Baugs (sbr.afkomutölur fyrir kauphöllina) þar sem færslurnar hefðu nettast út.
Í bókhaldi almenningshlutafélagsins Baugs kom einmitt fram að 3.1 milljón hlutir í Arcadia Plc. hefðu verið seldir til KB Banka Lúx fyrir 332.010.000 milljón krónur og 15.febrúar 2001 hafi sömu hlutir verið seldir tilbaka fyrir 1.35 per share eða samtals 544 milljónir.
Magnús Guðmundsson, KB Banka Lúxemborg, getur ekki útskýrt þessar færslur í bókhaldi Baugs í yfirheyrslum og segir þetta alrangt. Jafnframt segir hann hafa fengið fyrirmæli þess efnis að engar upplýsingar um reikninga Baugsmanna megi senda til almenningshlutafélagsins Baugs - heldur einungis til sín persónulega.
Framburður Magnúsar Guðmundssonar, KB Banka Lúx
Framburður forsvarsmanna SMS Keðjunnar í Færeyjum, Niels Mortensen, er býsna athyglisverður þar sem hann lýsir sömu reynslu og ég varðandi fyrirmæli Baugsmanna að útbúa tilhæfulausan reikning og senda til þeirra á Íslandi.
Hann útbjó slíkan reikning uppá tugi milljóna króna að kröfu Baugsmanna og sendi á þá.
Fram kemur í gögnum að þessi reikningur sem og reikningurinn sem ég sendi til Baugsmanna jók hagnað þeirra um 20% á uppgjörstölum fyrir kauphöll sem er umtalsvert.
Baugur á 50% í SMS keðjunni og hér lýsir Niels því hvernig hann var beðinn að segja ósatt við lögreglu ef þeir myndu spyrja hann út í þennan reikning. Hann kom aftur til lögreglu og gaf aðra skýrslu þar sem hann viðurkennir að hafa útbúið þennan tilhæfulausa reikning að beiðni Baugsmanna.
Framburður Niels Mortensen, framkvæmdastjóra SMS keðjunnar í Færeyjum
Baugsmenn létu einnig færa 4% sem Baugur átti í sjálfum sér til Lúxemborgar en létu engan innan almenningshlutafélagsins Baugs vita af því.
Athyglisverður póstur varðandi þá fléttu má lesa hér en Tryggvi Jónsson sendir forsvarsmanni KB Banka Lúx þetta 22.júni, 1999.
Hvorki endurskoðendur Baugs vissu um þessa millifærslu bréfanna né stjórnarmenn eða fjármálastjórar félagsins.
Einungis Jón Ásgeir og Tryggvi vita af þessari bréfa-millifærslu.
Skráð er í bókhald Baugs að sala á þessum bréfum hafi orðið til KB Banka Lúx og því er tekjufært hundruðir milljóna króna í bókhaldi Baugs vegna þessa og hafði því veruleg áhrif á afkomutölur Baugs hf.
Forsvarsmenn KB banka hinsvegar segjast aldrei hafa keypt þessi bréf heldur hafi þau verið geymd á vörslureikningí útibús þeirra í Lúxemborg en reikningurinn var í fullri eigu Baugs.
Jafnframt hefðu Jón Ásgeir/Tryggvi Jónsson gefið fyrirmæli þess efnis að enga pósta mætti senda um þessa reikninga í Lúxemborg til höfuðstöðva Baugs hf. heldur einungis til þeirra persónulega.
Framburður Magnúsar Guðmundssonar, KB banka Lúx
Það liggur fyrir í málinu að ef þessar "lagfæringar" á afkomutölum Baugsmanna hefði ekki verið gerðar sbr. sektardómurinn varðandi hinn tilhæfulausa reikning sem ég var beðinn að senda til þeirra hefði afkoma Baugs verið mun lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir sem og spár greiningardeilda.
Það hefði þýtt lækkanir á gengi bréfa Baugs sem stjórnendur Baugs vildu með öllum ráðum hindra sbr. orð Jóns Ásgeirs hér að ofan "...ég tel nauðsynlegt að verja þá hagsmuni að afkoma Baugs hf. sé í lagi".
Tölvupóstur "litlu stúlkunnar með eldspýturnar" hér að ofan sýnir hversu alvarleg fjárhagsstaða Baugs var á þessum tíma.
Fjölmörg önnur atriði má nefna og bendi ég sérstaklega á framburði Jóns Ásgeirs og Tryggva sem má nálgast undir kaflanum "Framburðir".
Framburðir þeirra er skyldulesning fyrir alla áhugamenn um viðskipti á Íslandi.
Eftir standa nokkrar spurningar :
Er það tilviljun að daginn eftir að starfsmaður fjármáladeildar Baugs sendir póst þess efnis að sjóður Baugs sé sprunginn, að þá sendi Jón Ásgeir póst með fyrirmælum að Gaumur þurfi að koma Baugi til aðstoðar "...við að koma uppgjörinu í rétt horf" ?
Á maður virkilega að trúa því að allir þessir póstar séu falsaðir sbr.málsvörn Baugsmanna fyrir dómstólum ?
Af hverju finnast engin gögn þess efnis, hvorki af hálfu lögreglunnar eða Baugsmanna sem réðu hóp sérfræðinga til að athuga póstana?
Er Niels Mortensen hluti af þessu samsæri gegn Baugsmönnum þegar hann lýsir í framburði sínum hvernig hann var beðinn að útbúa svipaðan tilhæfulausan reikning og ég var látinn gera og síðan fengið fyrirmæli að segja ósatt við lögregluna ?
Hvað á Tryggvi Jónsson við með póstinum sínum til yfirmanns KB banka í Lúx að hann hafi selt honum bréf á genginu 0.85 pens en látið Baug kaupa tilbaka á 1.35 og orðalagið "ágætis arðsemi þar" ?
Af hverju fékk KB banki fyrirmæli þess efnis að ekki megi senda neinar upplýsingar um reikning í Lúxemborg sem geymdi bréf Baugs í sjálfum sér til höfuðstöðva Baugs ?
Af hverju máttu starfsmenn almenningshlutafélagins Baugs hf. ekki vita af þessum reikningi í Lúxemborg ?
Hvað var verið að fela ?
Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.