Óli Björn Kárason, fyrrum ritstjóri viðskiptablaðsins kemst skemmtilega að orði varðandi vitleysuna með sterling flugfélagið þar sem hluthafar almenningshlutafélagsins FL Group voru hlunnfarnir um 15.000 milljónir króna:

8. júlí 2008
Hringekja Sterling og alltaf aukast verðmætin

Varla eru mörg fyrirtæki í heiminum sem hafa verið seld jafn oft á jafn stuttum tíma og Sterling Airlines. Og það sem meira er; seljendur hafa ekki gert mikið annað en græða milljarða (a.m.k. á bókum) þó aðeins nokkrir mánuðir hafi liðið á milli kaupsamninga. Ekki verður betur séð en að íslenskir athafnamenn séu öðrum fremri að selja fyrirtæki aftur og aftur, yfirleitt sín á milli, með verulegum hagnaði.

Kaup- og söluævintýrið hófst í mars 2005 þegar Fons, eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, keypti Sterling fyrir um fimm milljarða króna. Frá þeim tíma hefur flugfélagið gengið kaupum og sölu á milli tengdra aðila. Sjö mánuðum eftir kaupin seldi Fons, með smá fléttu, flugfélagið fyrir 14,6 milljarða króna til FL Group, sem rúmlega ári síðar seldi félagið aftur til nýs hlutafélag sem þar sem Fons var stærsti eigandinn fyrir 20 milljarða króna.

Það vakti mikla athygli hér á landi og í Danmörku þegar þeir félagar Pálmi Haraldsson og Jóhannes Kristinsson keyptu Sterling í gegnum eignarhaldsfélag sitt Fons. Kaupverðið var um fimm milljarðar króna. Það var stutt stórra högga á milli hjá þeim félögum því í júní sama ár keypti Fons Maerks Air. Kaupverðið var aldrei gefið upp en danska viðskiptablaðið Börsen greindi frá því að seljandinn, A.P. Møller-Mærsk, hefði þurft að leggja flugfélaginu til um 3,5 milljarða króna til að rétta fjárhag þess við. Í september rann Maersk inn í Sterling.

Fimm milljarðar verða 14,6 milljarðar á sjö mánuðum

Aðeins sjö mánuðum eftir kaupin á Sterling var gengið frá kaupsamningi FL Group á Sterling fyrir 14,6 milljarða króna. Um 10,7 milljarðar kaupverðsins var greitt í reiðufé og 3,9 með hlutabréfum í FL. Kaupverðið var að hluta bundið við afkomu Sterling en á það reyndi aldrei enda félagið selt enn og aftur á nýju ári.

Varlega áætlað má því halda því fram að hagnaður Fons á Sterling hafi ekki verði undir 9,6 milljörðum króna, en þá er ekki tekið tillit til meðgreiðslu A.P. Møller-Mærsk þegar Fons keypti Maersk, enda erfitt að átta sig á henni.

"Afhverju af ekki keypt á öðru og lægra verði..?"

Fyrsta dag nóvember 2005 eða rúmri viku eftir að gengið var frá kaupsamningi um Sterling var haldinn hluthafafundur í FL. Það var meðal annars ákveðið að auka hlutafé um 44 milljarða að markaðsvirði en hluti þeirrar aukningar var notaður til að greiða fyrir kaupin á Sterling. Daginn eftir greindi Morgunblaðið ítarlega frá fundinum og þar sagði meðal annars:

"Vilhjálmur Bjarnason, hluthafi í FL Group, beindi allnokkrum spurningum til stjórnar og forstjóra FL Group. Hann sagðist til að mynda hafa grun um að kaup á Sterling hefðu verið rædd innan stjórnar Flugleiða og síðan stjórnar FL Group á undanförnum tveimur árum. "Af hverju var ekki keypt á öðru og lægra verði þegar það stóð til boða?" spurði Vilhjálmur. Þá vildi hann fá að vita hversu mikið Landsbanki Íslands og Kaupþing banki tækju fyrir að sölutryggja hlutafjárútboðið og fyrir viðskiptin með Sterling eftir því sem það ætti við. Vilhjálmur benti sömuleiðis á að verulegur hluti af hagnaði FL Group undanfarin tvö ár væri til kominn vegna verðbreytinga á hlutabréfum í easyJet og spurði í framhaldinu hvort stjórnendur FL Group gætu upplýst það hversu stór hluti viðskipta með hlutabréf í félaginu hefðu átt sér stað með hlutabréf í easyJet árin 2004 og 2005 þar sem Flugleiðir og FL Group hefðu ekki verið aðili að þeim.

Spurningu Vilhjálms um Sterlingkaupin svaraði Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður FL Group, á þá lund að FL Group hefði ekki staðið til boða að kaupa Sterling eins og það væri nú nokkurn tíma áður, hvorki á hærra né lægra verði en verið væri að kaupa það á.

Um þóknun Landsbanka og Kaupþings banka vegna sölutryggingar á hlutafjárútboðinu upplýsti Skarphéðinn Berg að hún næmi rétt innan við 3% af heildarfjárhæðinni, þ.e. af 44 milljörðum, og nánari grein yrði gerð fyrir því í skráningarlýsingu á þessum hlutabréfum. "Spurningu Vilhjálms um easyJet sagði Skarphéðinn jafngilda því að spurt væri hvort félagið væri að "blöffa" kauphöllina í London og svarið við því væri nei.

Vilhjálmur sagðist ekki sáttur við svör Skarphéðins Bergs, þau svöruðu ekki spurningum hans. "Ég er engu nær," sagði Vilhjálmur."

FL Group tók formlega yfir rekstur Sterling í janúar 2006 og ríkti bjartsýni um framtíðina. Í júní greindi Börsen hins vegar frá því að FL hefði lagt Sterling til um 300 milljóna danskra króna vegna taprekstrar. Blaðið hafði það hins vegar eftir Almari Hilmarssyni framkvæmdastjóra Sterling að rekstur flugfélagsins það sem af var árinu hefði gengið betur en áætlanir gerður ráð fyrir. Börsen hafði það jafnframt eftir Pálma Haraldssyni að það hefði alltaf legið fyrir að Sterling þyrfti aukið fé vegna taprekstrar ársins á undan.

En söluferlinu á Sterling var langt í frá lokið.

Northern Travel Holding (NTH) var stofnað undir lok ársins 2006 þegar allt lék í lyndi og engum datt í hug að íslenskir útrásarvíkingar gætu stígið feilspor. Í tilkynningu til Kauphallar greindi FL Group frá því að tekist hefði að snúa rekstri Sterling við og væri það því rökrétt framhald að selja flugfélagið inn í hið nýstofnaða félag NTH fyrir 20 milljarða króna. FL Group var meðal hluthafa NTH ásamt Fons og Sundi (sem síðar gekk út úr félaginu). Fons var stærsti hluthafinn og því aftur eigandi Sterling í gegnum NTH.

Í yfirlýsingu sagði Hannes Smárason sem þá var forstjóri FL Group:

"Með stofnun Northern Travel Holding verður til nýtt spennandi afl á ferðamarkaðnum á Norðurlöndunum... Rekstur Sterling hefur aldrei gengið betur og því mikil tækifæri sem liggja í félaginu fyrir nýja eigendur."

Bókhaldslegur söluhagnaður FL var því umtalsverður.

Ársreikningur FL Group árið 2006 var glæsilegur en hagnaður félagsins eftir skatta nam alls 44,6 milljörðum króna, en þar munaði mestu um söluhagnað af Icelandair. Hannes Smárason sagði um uppgjörið:

"Árangur FL Group á liðnu ári var einstaklega góður. Með því að dreifa og stýra áhættu félagsins tókst að skila methagnaði og meira en tvöfalda hann frá fyrra ári. Á síðasta ársfjórðungi 2006 seldi FL Group dótturfélög sín, Sterling og Icelandair Group og þar með lauk að mestu fyrirhuguðum breytingum á félaginu þannig að nú er það hreint fjárfestingafélag með sterka fjárhagsstöðu og mikla fjárfestingagetu. Við horfum til ársins 2007 með mikilli bjartsýni og markmið okkar er að ná enn betri árangri en náðist á árinu 2006."

En að minnsta kosti einu sinni enn hefur Sterling verið selt en í byrjun þessa mánaðar var tilkynnt að Fons hefði keypt FL út úr Northern Travel Holding - en FL heitir nú Stoðir. Þar með er fjórðu sölunni á Sterling á rúmum þremur árum lokið og flugfélagið aftur komið í eigu Fons, sem keypti flugfélagið upphaflega í mars 2005. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en Fons greiddi með hlutabréfum í Stoðum (FL Group) og hringnum hefur því verið lokað - að minnsta kosti í bili.


Sjá einnig kaflann Baugsmenn og FL Group - "Töfraformúlan" loksins uppgötvuð?


Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.